Um daginn birtist frétt af konu sem var á fjórum mismunandi biðlistum eftir mjaðmaskiptaaðgerðum. Hún var á biðlista eftir aðgerð á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Sjúkrahúsinu á Akranesi auk þess að vera á biðlista eftir aðgerð á Sjúkrahúsi í Svíþjóð sem Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir. Á Íslandi eru gerðar um 800 mjaðmaskiptaaðgerðir á ári.
Í fréttinni kom fram að konan, sem hafði verið óvinnufær í fimmtán mánuði, hafði verið sett á biðlista eftir mjaðmaskiptaaðgerð á Landspítalanum og á sjúkrahús í Svíþjóð, þar sem ljóst var að biðtími eftir aðgerð á Landspítala yrði lengri en 3 mánuðir. Síðar frétti hún að einnig var hægt að vera á biðlistum á sjúkrahúsinu á Akranesi og sjúkrahúsinu á Akureyri og bað þá um að vera einnig sett á þá biðlista.
Það vakti undrun konunnar og okkar að ekki skuli vera samræmdur biðlisti eftir mjaðmaskipta-aðgerðum hér á landi. Það er með öllu óskiljanlegt að ekki er hægt að halda betur utan um þessar 800 aðgerðir en raun ber vitni. Það er óboðleg þjónusta við sjúklinga sem eru að bíða eftir slíkum aðgerðum (með mikla verki meðan beðið er) að ekki skuli vera samræmd þjónusta við þá. Verra er að þeir sem eru á biðlista eftir aðgerð á Landspítala eru settir á biðlista eftir aðgerð í Svíþjóð í stað þess að kanna til hlítar hvort mögulegt sé að framkvæma þessa aðgerð á þeim sjúkrahúsum sem framkvæma slíkar aðgerðir hér á landi. Svo alls sanngirni sé gætt, þá hefur COVID faraldurinn haft áhrif á fjölda aðgerða og biðlistar eftir þeim hafa lengst. Faraldurinn breytir þó ekki þeirri staðreynd að í gangi eru nokkrir mismunandi biðlistar eftir mjaðmaskiptaaðgerðum.
Ef heilbrigðisyfirvöldum er annt um sjúklinga og hagsmuni þeirra verður að samræma biðlista eftir mjaðmaskiptaaðgerðum, þannig að þeir sem bíða eftir aðgerð, viti nákvæmlega hver staðan er á hverjum tíma. Það er óboðleg þjónusta við veikt fólk að láta það standa í því sjálft að finna út hvar það er statt á hverjum tíma á biðlista. Þessa þjónustu ætti að vera auðvelt að samræma í ljósi þess að um er að ræða ekki fleiri aðgerðir en um 800 á ári.
Gunnar Alexander Ólafsson er heilsuhagfræðingur og Einar Magnússon er lyfjafræðingur.