Ég vil byrja á að taka það skýrt fram að ég er ekki Sjóræningi. Ég hef aldrei siglt um höfin sjö. Ég er með tvö augu, og tvo (2) fætur. Enginn síðhærður eða fúlskeggjaður maður hefur lofað mér þægilegri skrifstofuvinnu eða vænum styrk í vasann gegn ritun þessa pistils, samansafns orða.
Síður en svo. Til að mynda var langa- langa- langa- langa- langa- langa (langa?) afi minn í móðurætt háttsettur danskur kúgari íslensku þjóðarinnar. Mér skilst að hann hafi verið amtmaður eða fótgeti eða eitthvað álíka yfir Norðurlandi hérna í den.
Ennfremur hef ég tiltölulega takmarkaðan áhuga á pólitík almennt. Hún er jú hundleiðinleg.
Engu að síður fagnaði ég nýlegum fréttum og tölum um tilfærslu fylgis í íslenskum stjórnmálum með því að kreppa hnefann og færa hann hægt upp og niður. Ég lagaði trefilinn um hálsinn á mér, lagði latté-ið frá mér og horfði stromphissa á hendina á mér hreyfast til. Þetta var ekki líkt mér. Ég meina, hvað næst? Að skrifa pistil með sterkum pólitískum undirtónum í Kjarnann eins og allir hinir fanatíkerarnir?
Stórmerkilegt fyrirbæri
Ástæður þessarar undarlegu hegðunar má sennilega rekja til þess þegar ég horfði á heimildarmyndina "Gnarr” örfáum dögum fyrr. Ég hafði aldrei séð hana áður. Raunar var ég að einungis að líta hana augum því að spænskur kvenmaður sem ég umgengst töluvert vildi það endilega þar sem hún hafði ítrekað lesið að Jón Gnarr væri awesome. Þess ber að geta að umræddur kvenmaður er góður og gegn íslenskur þjóðfélagsþegn sem að elskar land og þjóð, þrátt fyrir að hún aðhyllist ekki kristin gildi eða hefðir. Ég geri mér grein fyrir að þetta er þversögn.
Allavega, á meðan ég var að hesthúsa poppskál og hrútskýra íslensk stjórnmál og óvænta uppgöngu Besta flokksins fyrir útlendri ástkonu minni rann hægt, mjög hægt, upp fyrir mér að téð heimildarmynd er stórmerkilegt fyrirbæri. Þetta er vel smíðað listaverk, og allt það. En fyrst og fremst uppfyllir hún hlutverk sitt með því að vera mögnuð heimild. Um liðna tíma, og um leið tímana sem við lifum á. Um ákveðna hugmyndafræði, heimspeki, eða nálgun.
Þannig eru þessir frosnu rammar frá ákveðnum stað og tíma í lífshlaupi Gnarrsins fyrst og fremst verkfæri. Eins og þegar maður horfir aftur á bíómynd með svakalegu tvisti, eins og Sixth sense eða Usual suspects. Eða kíkir á sólmyrkva í gegnum rafsuðugler. Sjónauki til að skyggnast afturábak og sjá hlutina í öðru ljósi.
Gaddfreðin kaldhæðni
Munið þið til dæmis hérna bakk inn ðe deis þegar Jón Gnarr, kortéri í kosningar, háði dramatískt einvígi í útvarpsviðtali við Hönnu Birnu þáverandi borgarstjóra (!) á Útvarpi sögu (!!) og hún tjáði honum að hann hefði ekki reynslu eða manndóm til að sinna því gríðarlega vandasama hlutverki sem að stýra höfuðborginni væri?
Munið þið til dæmis hérna bakk inn ðe deis þegar Jón Gnarr, kortéri í kosningar, háði dramatískt einvígi í útvarpsviðtali við Hönnu Birnu þáverandi borgarstjóra (!) á Útvarpi sögu (!!) og hún tjáði honum að hann hefði ekki reynslu eða manndóm til að sinna því gríðarlega vandasama hlutverki sem að stýra höfuðborginni væri?
Kaldhæðni er diskur sem er best borinn fram gaddfreðinn.
Tilsvar Jóns er tiltölulega magnað, og ég mæli með að þið tékkið á því, en í bili langar mig bara að biðja ykkur öll um að hafa ofangreint bakvið eyrað þegar sagan endurtekur sig og núverandi ráðamenn segja eitthvað ískyggilega svipað um verðandi valdaræningja, ruplara, og sjóræningja.
Og reyndar líka, að á meðan við hringsnúumst másandi eins og hamstrar í þið vitið svona hamstrahjólum og bölvum dapurlegum örlögum okkar er ágætt að hafa hugfast að sérsmíðuð kerfi, og kassar, breytast ekki neitt nema að fólk breyti til.
Sjórinn er kaldur. Karlmenn með svona sítt hár eru náttúrulega vafasamir. Óvissan er dimmt og ógnvænlegt hyldýpi þarna fyrir neðan okkur. En stundum er kannski best að ganga plankann og hugsa út fyrir (sand) kassann.