Samkvæmt 61. gr. EES-samningsins er ríkjum á EES-svæðinu bannað að raska samkeppni með því að nýta fjármuni ríkisins til þess að ívilna ákveðnum fyrirtækjum. Í framkvæmd þýðir þetta m.a. að þegar íslenska ríkið selur eigur sínar, þá þurfi að gæta þess að þeim fyrirtækjum sem heimilað er að kaupa, sé ekki veitt ívilnun með kaupunum, sem öðrum sambærilegum fyrirtækjum bjóðist ekki. Öruggasta leiðin til þess að koma í veg fyrir slíka ólögmæta ívilnun er að viðhafa opið útboð á þeirri eign sem selja skal og selja hæstbjóðanda. Ef víkja á frá slíku sölufyrirkomulagi þarf að gæta varúðar til þess að raska ekki samkeppni á milli fyrirtækja og mikilvægt er að hlutlæg, gagnsæ og lögmæt sjónarmið búi að baki ef önnur sjónarmið en hæsta verðið eiga að ráða því hver fær að kaupa.
Nú er út komin skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins á stórum eignarhlut í Íslandsbanka. Í henni er ekki tekin afstaða til söluferlisins með tilliti til ríkisaðstoðarreglna EES-samningsins, en við lestur á henni vakna óneitanlega spurningar um hvort salan hafi falið í sér ólögmæta ívilnun til tiltekinna fyrirtækja í skilningi hans.
Fyrir liggur að eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka flokkast sem fjármunir ríkisins í skilningi ríkisaðstoðarreglnanna. Fyrir liggur að einungis völdum aðilum, mest fyrirtækjum sem valin voru af söluráðgjöfum, bauðst að taka þátt í útboðinu. Fyrir liggur sömuleiðis að tekin var sérstök ákvörðun, sem borin var undir fjármálaráðherra til samþykktar í símtali, um að selja ekki hæstbjóðendum hlutinn, heldur að freista þess að fá ákveðin erlend fyrirtæki að borðinu með því að bjóða lægra verð.
Af hálfu ríkisins var því tekin sérstök ákvörðun um að ívilna tilteknum fyrirtækjum með því að bjóða þeim að kaupa eigur ríkisins á lægra verði en sem nam markaðsverði og því verði sem tilboðsgjafar voru reiðubúnir að greiða. Í hlutarins eðli liggur að þessi ráðstöfun var til þess fallin að raska samkeppni á milli fyrirtækja í fjárfestingastarfsemi á EES-svæðinu á þann hátt að sumum bauðst að kaupa eigur íslenska ríkisins á afslætti en öðrum ekki.
Ekki er neinar viðhlítandi skýringar að finna í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem réttlæta þessa ívilnun til þessara völdu aðila, sem ætla má að nemi á bilinu 1,6 – 2,25 milljörðum eftir því hvort miðað sé við markaðsverð eða það verð sem tilboðsgjafar voru reiðubúnir að greiða samkvæmt innsendum tilboðum.
Hér skal ekki fullyrt að um ólögmæt ríkisaðstoð hafi verið veitt í gegnum útboðið og þar með lög um ríkisaðstoð brotin. Sú atburðarrás sem lýst er í skýrslu Ríkisendurskoðunar ætti þó að verða Eftirlitsstofnun EFTA tilefni til þess að taka þennan gjörning til rannsóknar með tilliti til skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum.
Höfundur er rannsóknarsérfræðingur við lagadeild Háskóla Íslands.