Stutt svar við fréttaskýringu Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Á Íslandi er ekki ríkistrú og trúfrelsi er óumdeilt grunngildi í samtímanum. Aðskilnaður ríkis og kirkju getur haft í för með sér að ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé tekið burt en það hefur ekki bein áhrif á fjárhagsleg samskipti þjóðkirkjunnar og hins opinbera. Öll trú- og lífsskoðunarfélög fá sóknargjöld sem ríkið innheimtir. Sérstök fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju byggja ekki á sambandi þeirra heldur samningi tveggja sjálfstæðra aðila. Ríkið sparar enga peninga með aðskilnaði.
Við lásum Bakherbergispistil í Kjarnanum sem fjallar um samband ríkis og kirkju, nýlegar kannanir og orð sem forsætisráðherra og biskups Íslands létu falla um þetta samband við setningu kirkjuþings um helgina.
Það er margt sem væri gott að skýra betur varðandi tengsl ríkis og kirkju. Þau breyttust mjög árið 1998 þegar ný lög tóku gildi og þjóðkirkjan varð sjálfstæðari. Það eru tímamótin sem margir vísa í þegar rætt er um hvort ríki og kirkja séu þegar aðskilin. Enn setur Alþingi þó lög um málefni þjóðkirkjunnar sem taka í nokkrum greinum til innri málefna þjóðkirkjunnar.
Eins og fram hefur komið síðustu daga hefur fólk ólíkan skilning á því hvað felst í þessum tengslum og þar með hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju. Kjarninn tekur skýra afstöðu í fréttaskýringunni:
„Og það er enginn vafi um hvað aðskilnaður ríkis og kirkju þýðir. Hann þýðir að íslenskir skattgreiðendur hætti að veita fé til eins trúfélags í gegnum ríkissjóð og að ákvæði um sérstaka ríkistrú verði tekið út úr stjórnarskrá. Ekkert meira og ekkert minna.“
Hér er ástæða til að staldra við.
1. Stjórnarskráin. Það er ekki ákvæði um ríkistrú í stjórnarskránni. Slíkt ákvæði hefur aldrei verið í henni. Þar er ákvæði um þjóðkirkju, sem er sjálfstætt trúfélag meirihluta þjóðarinnar. Þar er líka ákvæði um trúfrelsi. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að það gangi upp að hafa hvort tveggja í einni og sömu stjórnarskránni. Ef Kjarninn á við að ákvæði um þjóðkirkju verði tekið út úr stjórnarskrá þá er betra að skrifa það. Það líklega rétt hjá Kjarnanum að flestir sjá fyrir sér að við fullan aðskilnað verði ákvæði um þjóðkirkju tekið úr stjórnarskrá. Ósvarað er spurningunni um það hvað komi í staðinn og hvaða breytingar þetta hafi í för með sér á tengslum hins opinbera og trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu.
2. Fjármálin. Fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju hvíla á tveimur stoðum, annars vegar sóknargjöldum sem öll skráð trú- og lífsskoðanafélög fá, ekki aðeins þjóðkirkjan; hins vegar samningi um afgjald vegna eigna sem kirkjan afhenti ríkinu. Sú afhending stuðlaði að því að ríkið, sveitarfélög og bændur hefðu jarðnæði til að vaxa og dafna. Í staðinn greiðir ríkið endurgjald – rétt eins og það hefði eignirnar á leigu. Formleg tengsl ríkis og kirkju eru ekki forsenda þess að greitt sé af þessum samningi. Þar koma til sögunnar almennar og lögvarðar reglur um greiðslu af því sem maður kaupir eða hefur afnot af.
Hér er áskorun:
Við hvetjum Kjarnann til að skoða ólíka fleti á sambandi ríkis og kirkju. Í því gæti falist að skoða hvaða áhrif þjóðkirkjuákvæðið hefur í stjórnarskránni, hvað þjóðkirkjan leggur til samfélagsins, hvað fælist í aðskilnaði annað en brottnám ákvæðisins í stjórnarskránni, hvað fólk eigi við þegar það segist vilja aðskilnað, og hvaða breytingar á kirkjuskipan og trúmálarétti aðskilnaður hefði í för með sér. Þetta eru spurningar sem mætti fást við í fréttaskýringum. Hér þarf vandaða vinnu og dýpt í umfjöllun.
Þegar aðskilnaður ríkis og kirkju er smættaður tal um ríkistrú, krónur og aura er málinu drepið á dreif. Þá sjáum við ekki kjarnann í sambandi ríkis og kirkju og þá skiljum við ekki ríki og kirkju.
Höfundar eru sóknarprestar á höfuðborgarsvæðinu.
Athugasemd ritstjórnar: Bakherbergið er skoðanadálkur á ábyrgð ritstjórnar Kjarnans. Efni sem í því birtist er ekki fréttaskýring . Skýr aðskilnaður er milli skoðana- og fréttaefnis hjá Kjarnanum.