Andúð þess fólks sem vill skilgreina sig sem almennilegar manneskjur en keppist nú við að níða leiðtoga láglaunafólksins sem þau töpuðu fyrir i borginni er ótrúlega afhjúpandi og sýnir að þótt pínulítill kall geti komið sér út úr moldarkofa er erfiðara að ná moldarkofanum úr honum.
Þessi aldagamla fyrirlitning á fátæku fólki og baráttu þess opinberar betur er flest annað þá frumstæða grimmd sem hin betur settu hafa ævinlega verið tilbúin að sýna fátækum og varnarlausum, fólkinu sem á að strita ósýnlegt og þögult, svara aldrei nema á það sé yrt (og þá bljúgum og lágum rómi) - og endilega ekki láta mæðina heyrast þegar það klárar síðustu kílómetratugina í skúringunum.
Þessi sérfræðimenntaði stjórnandi gat ekki hugsað sér að starfa við hlið Sólveigar Önnu þegar hún var kjörin til forystu í Eflingu heldur sagði upp og réði sig til að stýra samninganefnd Reykjavíkurborgar þar sem hún beitti sér af alefli gegn öllum kjarabótum láglaunafólksins. Þvermóðska formanns samninganefndar Reykjavíkurborgar, skilnings- og skeytingarleysi hennar um líf og kjör þeirra sem hún vildi m.a.s. sem stjórnandi hjá verkalýðsfélagi aðeins sjá hlaupa og hlaupa og hlaupa og hlaupa, er eina sanna skýringin á því að verkföll drógust á langinn.
Framgangan í samningaviðræðunum var í fullu samræmi við moldarkofaviðhorf borgarstjórnarmeirihlutans; viðhorf sem skýra betur en nokkuð annað hve lengi borgin reyndi að koma sér undan því að byrja að standa við fallegu fyrirheitin: Við ætlum að leiðrétta laun kvennastétta.
Það gerðu þau nefnilega ekki fyrr en tilneydd - og eru ennþá vælandi yfir því.
Höfundur er með meistarapróf í stjórnsýslu menningarminja frá University of York og er systir Sólveigar Önnu Jónsdóttur.