Verðmætin sem börnin sakna eftir eldsvoðann

Ef allar eigur þínar myndu eyðileggjast í eldi, hvers myndir þú helst sakna? Rúmdýnunnar nýju, vatnsflöskunnar og lyklakippunnar sem ég fékk í afmælisgjöf, segja ung úgönsk börn eftir mikinn eldsvoða í heimavistarskólanum þeirra.

Auglýsing

„Ég tap­aði öllu sem ég átti á heima­vist­inni. Það sem ég sakna mest er kjóll sem ég fékk í afmæl­is­gjöf. Núna óska ég þess heit­ast að ég hefði skilið hann eftir heima hjá mömmu.“

Sauda Nang­bobi er sjö ára. Hún er meðal þeirra nem­enda í Bupad­hen­go-stúlkna­skól­anum norður af Vikt­or­íu­vatni í Úganda sem misstu allt í elds­voða sem varð á heima­vist skól­ans 26. jan­ú­ar.

Já, Sauda er á heima­vist. Þrátt fyrir að vera svona ung. Það sama á við um tug­þús­undir barna í Úganda. Sum þeirra eru send að heiman jafn­vel fimm ára göm­ul. Algeng­ast er þó að börnin fari í heima­vist­ar­skóla um tíu eða tólf ára ald­ur­inn.

Auglýsing

Neyðin þröngvar flestum for­eldrum til að taka þessa ákvörð­un. Að senda börnin sín frá sér. Þetta er ekki svo fjar­lægt okkur Íslend­ingum því aðeins fáir ára­tugir eru síðan að heima­vistir voru við marga barna­skóla í sveit­um. Líkt og á Íslandi eru langar vega­lengdir helsta ástæð­an.

Önnur er sú að for­eldrar vilja að börn þeirra fari í betri skóla en eru næst heim­ilum þeirra og sú þriðja er langur vinnu­dagur þeirra sjálfra. Þegar leggja þarf af stað til vinnu fót­gang­andi um klukkan 5 á morgn­anna og ekki komið heim fyrr en löngu eftir myrkur er erfitt að sinna börn­unum ef ætt­ingi eða nágranni getur ekki litið til með þeim. Þá eru fá úrræði önnur í boði en heima­vist­ar­skól­ar.

„Mikið er dásam­legt að heyra í börn­unum aft­ur,“ sagði nágranni minn í fjöl­býl­is­hús­inu á Kololo-hæð í Kampala, mánu­dag­inn 10. jan­úar er göt­urnar fyllt­ust af skríkj­andi sælum börnum á leið í skól­ann, sum með skóla­töskur á bak­inu en önnur með bæk­urnar undir hand­leggn­um.

Það hefur verið hljótt hérna við húsið síð­ustu mán­uði, hélt nágrann­inn áfram. Sunn­an­megin blokk­ar­innar er grunn­skóli sem hafði staðið tómur í 95 vik­ur, tæp tvö ár, en var nú loks aftur fullur af lífi. Glað­leg hróp og köll barna í elt­inga­leik, barna í fót­bolta, barna að skrafa saman og skelli­hlæja ómuðu á ný frá skóla­lóð­inni.

Börn á leið heim úr skólanum í norðurhluta Úganda Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

Hvergi í víðri ver­öld voru skólar jafn­lengi lok­aðir vegna far­ald­urs­ins en í Úganda. Millj­ónir barna og ung­menna urðu af menntun enda aðeins brot for­eldra sem hafði efni á því að greiða fyrir einka­kennslu.

Heima­vist­ar­skólar hafa verið þekktir í Úganda í ára­tugi en á síð­ustu árum má segja að spreng­ing hafi orðið í fjölda þeirra. „Þegar börnin þurfa að ganga fleiri kíló­metra á dag til að kom­ast í skóla er þetta oft eina úrræðið sem for­eldrar hafa,“ segir kenn­ari þegar ég spyr hann út í þró­un­ina.

Það eru engir skóla­bíl­ar. Örfáir einka­bíl­ar. Gangan langa getur líka verið hættu­leg. Veg­irnir og slóð­arnir sem börnin fara um eru ekki upp­lýstir í borgum og bæj­um, hvað þá í þorp­unum úti á lands­byggð­inni. Stúlkur eru sér­stak­lega ber­skjald­aðar og mörg dæmi eru um að þær neyð­ist til að hætta námi.

Skólastrákar í Namayingo-héraði. Rimlar fyrir gluggum. Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

En heima­vist­irnar eru heldur ekki alltaf öruggur dval­ar­staður fyrir börnin þótt þær séu vissu­lega mis­jafn­ar. Þar er oft þröng á þingi, stundum börn á ýmsum aldri á sömu vist­inni og lítil hjörtu geta orðið enn minni þegar mömmu og pabba nýtur ekki við.

„Að minnsta kosti fjórir nem­endur á aldr­inum sex til sjö ára lét­ust og einn slas­að­ist alvar­lega í elds­voðum á tveimur heima­vistum grunn­skóla á laug­ar­dags­morg­un­n.“

Fréttir úganskra fjöl­miðla sunnu­dag­inn 16. jan­úar voru slá­andi. Tæp vika var liðin frá því að skól­arnir voru opn­aðir aft­ur. Nokkrum dögum síðar kvikn­aði svo eldur á vist­inni sem hin sjö ára gamla Sauda dvaldi á. Eng­inn lést en eigur barn­anna urðu eld­inum að bráð.

Barnablaðið í Daily Monitor í Úganda. Mynd: Bára Huld Beck

„Ég tap­aði ferða­tösk­unni minni og lykla­kippu sem ég hafði fengið í afmæl­is­gjöf,“ segir Prima Atu­gonza, sjö ára. „Það er enn sárt að hugsa til þess.“

Prima litla er meðal þeirra barna sem deila með barna­blaði dag­blaðs­ins Mon­itor þeim verð­mætum sem þau misstu í elds­voð­an­um.

Þetta er nokkuð hefð­bundið barna­blað, svipað upp­byggt og Barna­blað Morg­un­blaðs­ins. Í því er að finna þraut­ir, leiki og teikn­ingar barna. Þar má einnig sjá for­vitni­legt fræðslu­efni. „Vissir þú að það eru aðeins kven­kyns moskítófl­ugur sem bíta?“

En sam­an­burð­ur­inn við Barna­blað Morg­un­blaðs­ins nær svo ekki lengra. For­síðan er lögð undir myndir af stúlk­unum af heima­vist­inni og sögum þeirra.

Auglýsing

„Eld­ur­inn og reyk­ur­inn var mjög mik­ill,“ segir Vivan Mwogeza, fimm ára. „Þegar búið var að slökkva eld­inn sá ég að nýja rúm­dýnan mín og moskítónetið hafði brunnið til ösku.“

Rihanna Poni er orðin tíu ára og hún er miður sín yfir þeim verð­mætum sem hún tap­aði. „Get­urðu ímyndað þér,“ segir hún, „allir pen­ing­arnir sem ég hafði safnað mér í útgöngu­bann­inu, 1.200 shill­ings, urðu eld­inum að bráð.“

1.200 shill­ings eru 42 íslenskar krón­ur.

„Þegar ég minn­ist skónna minna og vatns­flösk­unnar sem ég tap­aði í eld­inum þá græt ég,“ segir hin sex ára gamla Macrena Naluta­aya. „Eld­ur­inn eyði­lagði allt.“

Tugir nemenda eru oft saman í bekk í grunnskólum í Úganda. Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

Enn er verið að rann­saka hvað olli elds­voð­an­um. Þeir eru tíðir í skólum og á heima­vistum og oft­ast hefur lög­reglan skellt skuld­inni á brennu­varga sem svo engar vís­bend­ingar finn­ast um. Sjaldan er því ein­hver dreg­inn til ábyrgðar en stundum hafa skóla­stjórendur verið hand­teknir og jafn­vel ákærð­ir. Skóla­stjórn­endur sem hafa oft svo lítið fé á milli hand­anna að þeir geta ekki keypt borð, stóla og skóla­bæk­ur, hvað þá tryggt eld­varnir á heima­vist­unum sem sífellt meiri ásókn er í.

Víð­ast er lenskan sú að hafa rimla fyrir gluggum heima­vist­anna og læsa hurðum að inn­an­verðu, jafn­vel með hengilás. Þetta er gert í örygg­is­skyni, svo eng­inn utan­að­kom­andi kom­ist inn, en er tví­eggjað sverð. Því í fáti því sem verður í elds­voða geta þær mín­útur og jafn­vel sek­úndur sem tekur að opna læsta hurð eða glugga kostað manns­líf. Og það hefur einmitt oft­sinnis gerst.

Foreldrar reyna að halda börnum sínum heima sem lengst áður en þau eru send í heimavistarskóla. Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

Tala má um far­aldur elds­voða á heima­vistum og í skólum í Úganda síð­ustu ár. Og enn eru þeir ítrekað að eiga sér stað. For­eldrar krefj­ast úrbóta og sumir treysta sér ekki lengur til að hafa börn sín á vist­un­um. Þá eykst hættan á því að skóla­göngu barna, sér­stak­lega stúlkna, ljúki.

Sauda og skóla­systur hennar urðu að fara heim eftir elds­voð­ann. Það verður von­andi aðeins tíma­bund­ið. Menntun stúlkna hefur sem betur fer stór­auk­ist síð­ustu ár og auð­veld­ara aðgengi að skólum er sann­ar­lega stór áhrifa­þátt­ur.

„Christine mun ekki fara á heima­vist fyrr en hún verður tíu ára,“ segir Laban vinur minn. Einka­dóttir hans er orðin sex ára og byrj­aði í skóla fyrir nokkrum vik­um. Eldri börnin hans fjögur eru öll í heima­vist­ar­skól­um. Þetta eru einka­skólar en þó engan veg­inn á pari við það sem við Íslend­ingar setjum flestir í það orð.

Auglýsing

Það kostar skild­ing­inn að hafa börn í einka­reknum skólum og Laban leggur mikið á sig við að tryggja börnum sínum þá bestu menntun sem fjár­hagur hans leyf­ir. Hann keyrir frá morgni til kvöld með far­þega á skell­inöðr­unni og leggur hvern aur sem hann getur fyr­ir. Hann segir vissu­lega erfitt að vera aðskil­inn vikum og jafn­vel mán­uðum saman frá sonum sín­um. „En þeir verða að mennta sig,“ segir hann ákveð­inn.

„Þetta er alltaf mjög sorg­legt og ég er oft áhyggju­full­ur,“ heldur hann áfram um elds­voð­ana tíðu í skólum lands­ins. „En yfir­völd í skólum drengj­anna eru að leggja sig fram við að tryggja öryggi þeirra.“

Laban hafði áður sagt mér að Christine lang­aði að verða lækn­ir. Hann veit þó sem er að í landi þar sem fátækt og atvinnu­leysi er útbreitt eiga draumar það til að verða að engu. En hvatn­ing mömmu og pabba er svo ein­læg í til­felli Christine og bræðra hennar að það er ekki annað hægt en að fyll­ast bjart­sýni fyrir þeirra hönd.

Draumar geta nefni­lega ræst.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiSunnudagar