Alþingi er mikilvægasta stofnun þjóðarinnar, en vissulega ekki mikilvægara en þjóðin sjálf. Þjóðin kýs sér fulltrúa til að fjalla um hin óskyldustu mál, setja lög og gæta almannahags. Þetta kann að vera gallað kerfi en ekki er hægt að benda á annað betra. Ekki er ástæða til að ætla annað en að hinir kjörnu fulltrúar vilji gera sitt besta. Oft tekst þeim ágætlega, stundum miður, eins og við er að búast.
Einn er sá flokkur mála sem þinginu virðist einkar ósýnt um að haga skynsamlega. Það eru mál sem varða þingið sjálft og kosningar til þess. Nokkur dæmi:
- Þingsköp leiða einatt til fáránlegra vinnubragða sem draga mjög úr trausti almennings. Reglur um málfrelsi, rétt til andsvara og athugasemda um störf þingforseta eru þannig að örlítill minnihluti getur með innihaldslausu málþófi stöðvað eða tafið mál sem mikill þingmeirihluti styður. Þetta hefur öllum verið ljóst lengi, en þingið hefur ekki getað komið sér saman um að breyta þessum fáránlegu reglum, ekki reynt það.
- Kosningalög eru ólýðræðisleg: vægi atkvæða er mismunandi eftir kjördæmum, og hin gömlu rök um dreifbýli og höfuðborgarsvæði eru ógild, t.d. er atkvæði kjósanda á Akranesi tvöfalt á við atkvæði kjósanda í Kjósinni, eins og nýlega var bent á.
- Skipting landsins í kjördæmi á sinn þátt í þessu, en hún er fáránleg frá landfræðilegu sjónarmiði, eins og hver maður getur séð. Henni var víst m.a. komið á til að tryggja jafnræði milli flokka, sem var þingmönnum hugstæðara en jafnrétti þegnanna, en þó hafa þeir ekki getað komið sér saman um að gera þær breytingar sem til þarf að jafnræði flokka sé tryggt.
- Loks leiða reglur um úthlutun jöfnunarþingsæta, sem einnig eiga að tryggja jafnræði milli flokka, til óskiljanlegra niðurstaðna. Það leikhús fáránleikans er hvorki bjóðandi þjóð né frambjóðendum.
- Enn má nefna framkvæmdaatriði sem ætti að vera tiltölulega einfalt að leiðrétta, eins og talningu atkvæða í hinum óravíðáttumiklu landsbyggðarkjördæmum eða talningu atkvæða greiddra utan kjörstaðar sem fer og mun fara sífellt fjölgandi.
Óskiljanlegt er að þingið skuli ekki hafa lagfært þessa hluti, en skýringin er líklega sú hugmynd að slík mál eigi að leysa með samstöðu eða sátt þingflokkanna. Þess vegna stranda breytingar á því að einhver telur eða er hálfhræddur um að breytingarnar verði flokki hans í óhag. Hvers vegna í ósköpunum á meiri hluti ekki að ráða eins og í lagasetningu?
Stjórnarskrármálið er í sömu kreppu. Þingið virðist ófært um að gera breytingar á stjórnarskrá, jafnvel þótt vilji þjóðarinnar liggi fyrir. Augljóst er að margir þingmenn skilja ekki eða vilja ekki skilja að vilji þjóðarinnar er æðri en vilji þingflokkanna, þótt endanleg samþykkt stjórnarskrár sé í höndum þingsins. En jafnvel þótt vera kunni meirihluti á alþingi fyrir breytingu stjórnarskrár tala stjórnmálamenn um að ná þurfi sátt eða mikilli sátt (á þingi) um breytingarnar. Hvað þýðir það? Það þýðir að minnihluti, jafnvel lítill minnihluti hefur neitunarvald. Það þýðir ekki að sátt þurfi að vera um óbreytt ástand. Um það er augljóslega engin sátt.
Flestir þekkja dæmi um mikið atorkufólk sem hefur mörg járn í eldi en lætur þó allt dankast heima hjá sér, kemur ekki nauðsynlegum viðgerðum og umbótum í framkvæmd fyrr en eftir dúk og disk, jafnvel aldrei. Viljum við hafa svoleiðis alþingi? Vill hið nýkjörna alþingi láta þetta allt dankast áfram?
Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.