Á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar var samþykkt ályktun þess efnis að vinda skuli ofan af áformum um vinnslu olíu á Drekasvæðinu og að yfirlýsing um slíkt verði hluti af framlagi íslendinga til heildarsamkomulags um aðgerðir gegn loftslagsvá. Undirritaður var einn af fáum landsfundafulltrúum sem er ósammála þessari ályktun og telur hana ekki vænlega til árangurs í baráttunni við loftslagsvána og afvegaleiða umræðuna um þetta mikilvæga umhverfismál. Hér er mitt sjónarmið.
Drekamálið snýst í grófum dráttum um tvennt, annarsvegar þá hættu á umhverfisslysum sem fylgir olíuvinnslu á hafi úti og hinsvegar þann útblástur gróðurhúsalofttegunda sem bruni olíunnar sem þar hugsanlega verður unnin mun valda. Seinna atriðið er þungamiðja umræðunnar um hvort draga eigi gildandi rannsóknar- og vinnsluleyfi til baka eða ekki.
Staða loftslagsmála
Nýlega kom út fimmta matsskýrsla milliríkjanefndar sameinuðuþjóðana (IPCC) um loftslagsmál. Í stuttu máli er í henni fastar kveðið á orði um alvarleika loftslagvárinnar en nokkru sinni áður. Það sem áður voru tilgátur um hlýnun andrúmsloftsins eru nú álitnar staðreyndir. Í skýrslunni eru þjóðir heims hvattar til að grípa til aðgerða sem virkilega muni draga úr útblæstri sem um munar.
Í stefnumótun er oft hægt að flokka tillögur í tvennt; þær sem virka, og þær sem líta vel út. Í þessu máli hefur mannkynið bara efni á því að nota tillögur úr fyrri flokknum.
Loftslagsaðgerðir ESB – aðferðir sem virka
Undanfarna áratugi hefur ESB verið að þróa löggjöf til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Í grófum dráttum skiptist nálgun ESB í tvö kerfi, annarsvegar viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) og hinsvegar í almenn losunarmarkmið aðildarríkja (e. Effort Sharing). Þessi kerfi eru þau stærstu og öflugustu sinnar tegundar í heiminum og hafa sannað sig með tilheyrandi árangri, þrátt fyrir ýmsa vankanta og byrjunarörðuleika. Margir hafa bent á að markmið ESB um 20% samdrátt fyrir árið 2020 hafi verið of varfærið og auðvelt hefði verið að taka stærra skref enda tækin fyrir hendi og orðin vel mótuð.
En nú þykir ljóst að ESB ríkin muni ná þessu markmiði fyrir árið 2020 og er nú vinna í gangi við að skilgreina ný markmið fyrir næstu 10 ár þar á eftir þ.e. til 2030. Margir bjuggust við að stefnt yrði að 30% samdrætti, en sökum þess hversu góðum árangri fyrrnefnd kerfi hafa náð hefur framkvæmdastjórn ESB lagt til að að stefnan verði sett á 40% samdrátt! Þetta er að sjálfsögðu meiri árangur en nokkuð annað ríki eða ríkjasamband hyggst ná í þessum málum.
Á sama tíma virðist ekki stefna í að Bandaríkjamenn nái sínum yfirlýstu markmiðum um 17% samdrátt útblásturs fyrir árið 2020 nema að þeir grípi til róttækra aðgerða. Vissulega verður að hafa í huga að efnahagskreppan í Evrópu gerði mönnum verkið auðveldara síðustu ár. Sama gildir um byltingu í vinnslu gas með bergbroti í Bandaríkjunum, en útblástur frá gasorku er mun minni en kolaorkuveri af sömu stærð.
Í stuttu máli má fullyrða að flest lönd gætu tekið sér loftlagsstefnu ESB til fyrirmyndar, sér í lagi ef þetta nýja markmið verður formlega sett. Þó verður að geta þess að talsmenn IPCC höfðu vonast til að ESB tæki stærra skref að þessu sinni til að nálgast hraðar það markmið að draga úr losun um 90%-95% fyrir 2050. Formleg ákvörðun aðildarríkjanna hefur ekki litið dagsins ljós og því er enn tækifæri fyrir stjórnmálamenn og þrýstihópa, íslenska sem aðra, sem vilja leggja áherslu á þessi mál að hafa áhrif.
Þátttaka Íslands og orkustefna ESB
Undir forystu þáverandi umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur gerðist Ísland, árið 2009, aðili að fyrrnefndu regluverki ESB um útblástursmál í heild sinni. Var þá hið s.k. íslenska ávæði lagt til hliðar. Síðan þá hefur Ísland verið fullur þátttakandi í þessu árangursríkasta stjórntæki heims á sviði útblástursmála.
Lykillinn að þessum árangri ESB er að sambandið setur aðeins bindandi markmið um heildarlosun en skiptir sér ekki af því hvernig hún er til komin. Með útboðum á losunarheimildum eru markaðsöflin virkjuð til að finna hagkvæmustu leiðina að þessum markmiðum. Þannig má draga hraðar úr losun án þess að íþyngja efnahagslífinu um of. Þessi kerfi fela það í sér að aukinn bruni og útblástur á einum stað með einni tegund jarðefnaeldsneytis veldur sjálfkrafa samdrætti á bruna og útblæstri annarsstaðar og etv. með annarri tegund eldsneytis.
Breyttar aðstæður?
Evrópuríkin eru langt frá því að vera sjálfum sér næg um olíu og dekkar innflutt olía rúmlega ¾ hluta núverandi notkunarinnar. Þessi halli felur í sér töluverð efnahagslega og pólitíska áhættu eins og gefur að skilja. Til að auka orkuöryggi ríkja ESB hefur sambandið þá stefnu að aðildarríkin auki sína orkuvinnslu þ.m.t. olíu á kostnað innflutts eldsneytis. Nánari útfærsla er að sjálfsögðu undir hverju aðildarríki komin, en höfundi er ekki kunnugt um neitt ríki sem hefur það á stefnu sinni að takmarka olíuvinnslu heimafyrir sökum stefnu í útblástursmálum og flytja meiri olíu inn í staðinn.
Eins og kunnugt er var fyrsta leyfinu til olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu úthlutað í stjórnartíð Samfylkingarinnar árið 2012 og þá hafði Ísland verið aðili að evrópska kerfinu um losunartakmarkanir í þrjú ár og lágu því allar ofangreindar forsendur um þátttöku Íslands í evrópska kerfinu fyrir. Ekkert hefur breyst í þeim efnum síðan 2012.
Hinsvegar hafa í millitíðinni bæst við upplýsingar sem benda til þess að loftslagsváin sé jafnvel meiri en áður var talið, eins og fram kemur í nýjustu skýrslu IPCC. Jafnfram hefur ESB og þar með Ísland hert á markmiðum sínum um samdrátt losunar.
Hvað er til ráða?
Vilji Ísland vera til fyrirmyndar í þessum málum er vænlegast til árangurs að Ísland haldi áfram samstarfi sínu við ESB og óski eftir því að almenna losunarmarkmið sitt verði hert enn frekar. Til að kosta það mætti auka álögur á þau efni sem valda útblæstri en falla ekki undir sameiginlega viðskiptakerfið. Íslenskur loftslagssjóður sem gegnir þessu hlutverki er nú þegar til og nýtur hann tekna af uppboðum í viðskiptakerfinu.
Íslenskir stjórnmálamenn gætu jafnframt lagst á árar forsvarsmanna IPCC og aukið þrýsting á ESB um að ganga lengra en -40% með 2030 markmiðunum þess og Íslands. Því miður er ekki er gerð tillaga um neina slíka róttækni í þessum mikilvæga málaflokki í ofangreindri ályktun landsfundar Samfylkingarinnar.
Samhliða stífari markmiðum Íslands mætti nota olíugróðann til að efla lofslagssjóðinn sem þá hefði burði til að hraða orkuskiptum í samgnöngum.
Lokaorð
Í tíð George Bush yngri bandaríkjaforseta voru loftslagsmálin að komast í hámæli. Í ræðum sínum um þessi mál greip hann til þess ráðs að telja um þau fjölmörgu fallegu umbótaverkefni sem vissulega voru í gangi í svo stóru landi sem Bandaríkin eru. Hinsvegar var engin heildstæð nálgun til staðar og árangurinn lét á sér standa.
Að lýsa því yfir að Drekinn verði látin sofa er falleg yfirlýsing og gæti vissulega haft jákvæð áhrif á ímynd Íslands í umhverfismálum. Hann yrði jafnframt ágætis atriði í upptalningu stjórnmálamanns sem ætlaði ekki að gera neitt sem máli skiptir í þessum veigamikla málaflokki.
Umræðan um loftslagsmál og þau tæki sem við getum beitt til að ná marktækum árangri er í skötulíki á Íslandi. Lengi framan af bentu stjórnmálamenn á Íslenska ákvæðið sem framlag Íslands til þessara mála. Það ákvæði virkaði hinsvegar öfugt. Fyrst alvöru skrefið og reyndar það eina hingað til sem Ísland hefur stigið í loftslagsmálum er að óska eftir fullri aðild að ESB í þessum málaflokki og var það þeim umhverfisráðherra til mikils sóma að mínu mati.
Að afturkalla úthlutuð leyfi til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu mun af ofangreindum ástæðum ekki geta skoðast sem framlag til loftslagsmála, aðeins stefna um raunverulegan samdrátt útblásturs mun gera það.
Ég samþykki ekki að ganga svona til verks ef markmiðið er eingöngu að senda skilaboð en ekki að gera eitthvað róttækt í útblástursmálunum. Því samhliða sendum við umheiminum skilaboð um að varast að gera samninga við Ísland.
Heimildir
http://ec.europa.eu/clima/policies/2030/index_en.htm
http://ec.europa.eu/priorities/energy-union/docs/energyunion_en.pdf