Það er skemmst frá því að segja að tillaga um hækkun bankaskatts hlaut engar undirtektir þingmanna síðasta haust, hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu, en nú er komið í ljós að yrði bankaskatturinn hækkaður í það sem hann var fyrir lækkun, myndi það þýða um 9,4 milljarða fyrir ríkissjóð ofan á þessu litlu 5,9 milljarða sem bankarnir greiða nú þegar til samfélagsins.
Um þetta er fjallað í grein Kjarnans Ríkissjóður getur sótt næstum 15 milljarða með því að hækka fjármagnstekju- og bankaskatt en kveikjan að henni var minnisblað til Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem skrifstofa skattamála fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann að beiðni nefndarinnar.
Það var hinn 27. desember á síðasta ári sem ég mælti fyrir breytingartillögu við bandorm fjárlaga um hækkun bankaskatts úr 0,145% í 0,376%. Í stuttu máli greiddu stjórnarflokkarnir ásamt Viðreisn atkvæði gegn bankaskattinum, Flokkur fólksins greiddi atkvæði með en aðrir flokkar sátu hjá. Það skal tekið fram að ég er með samsvarandi tillögu tilbúna fyrir fjárlagabandorm þessa árs sem vonandi hlýtur brautargengi.
Ég hef skrifað ófáar greinar í gegnum árin um hinn gríðarlega hagnað bankanna sem nær ekki nokkurri átt að mínu mati. Það er ekkert eðlilegt við það að í jafn fámennu þjóðfélagi og Ísland er hafi bankar hagnast um upphæðir sem jafngilda meðal mánaðartekjum fyrir hverja einustu þriggja manna fjölskyldu á hverju ári.
Það þýðir að eitthvað stórkostlega mikið sé að, því eins og orðið hagnaður gefur til kynna, þá eru þær tölur eftir að bankarnir eru búnir að greiða allan sinn rekstrarkostnað, laun og hvaðeina annað sem fellur til, en eiga þetta í afgang. Það að hagnaður bankana jafngildi því að hver einasta fjölskyld landsins sé að greiða því sem jafngildir einum mánaðarlaunum til bankanna í formi vaxta og þjónustugjalda, segir allt sem segja þarf um bullið sem er í gangi.
Að þessu sögðu er hluti þessarra gjalda eðlilegur, eins og t.d. hóflegir vextir á lánum, en velta og hagnaður bankanna gefa til kynna að um mikið meira en það sé að ræða og að hér sé um hreina sjálftöku í krafti gríðarlegs aflsmunar að ræða.
Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil
En þá komum við að því sem kristallaðist svo vel í umræðunni um bankaskattinn í fyrra; stjórnmálamenn er flestir alveg skíthræddir við bankana. Þeir hvorki þora né vilja rísa upp gegn þeim á nokkurn hátt og þjónkun stjórnmálamanna á síðustu árum við þá og fjármálakerfið, á sér varla hliðstæðu í öðrum löndum.
Ef við lítum til sögu þessarar aldar eru dæmin mýmörg um hvernig bankarnir hafa vaðið uppi og farið sínu fram, alltaf án afleiðinga og yfirleitt þannig að afleiðingum sé velt yfir á hrekklausan almenning, sem einu sinni bar mikið traust til bankanna, og jafnvel líka stjórnmálamanna, sem báðir aðilar fóru vægast sagt illa með, en nóg um það að sinni.
Í fyrrnefndu minnisblaði segir um bankaskattinn:
„Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálastofnanir, eða bankaskatti, muni nema 5,9 milljörðum kr. Væri skattprósentan hækkuð úr 0,145% í 0,376% má gera ráð fyrir að tekjur af skattinum árið 2023, að öllu öðru óbreyttu, myndu nema 15,3 milljörðum kr. Hér er um einfaldan útreikning að ræða miðað við óbreyttan skattstofn.“
Þetta er svarið sem efnahags- og viðskiptanefnd fór fram á og sýnir svart á hvítu hversu mikið ríkið hefur gefið frá sér með lækkun bankaskatts. En framhaldið vekur athygli því þar endurómar ráðuneytið pólitíska sýn fjármálaráðherra, ríkisstjórnarinnar og, því miður flestra stjórnarandstöðuflokka.
„Áhrif slíkrar skattahækkunar eru þó margslungnari en svo og því líklega um ofmat að ræða. Skattbyrðin leggst ekki að öllu leyti á greiðendur skattsins heldur viðskiptavini þeirra einnig. Auknar álögur á fjármálastofnanir stuðla að auknum vaxtamun og minni útlánavexti sem hefur áhrif á fleiri skattstofna, þ.m.t. ráðstöfunartekjur lántakenda. Þar að auki leggst skatturinn á skuldir stofnananna og dregur því úr hvata þeirra til að stækka efnahagsreikning sinn og auka útlán. Erfitt er að meta afleidd áhrif slíkrar skattahækkunar á aðra skattstofna utan að þau eru neikvæð fyrir tekjur ríkissjóðs og vega því að einhverju leyti gegn tekjuauka af hækkun bankaskattsins sjálfs.“
Framangreind orð eru líkari þingræðu heldur en faglegri upplýsingagjöf. Nú er ég ný á þingi, en það vekur furðu mína að pólitísk afstaða skuli koma fram með þessum hætti í svari ráðuneytisins. Ljóst er að fjármálaráðuneytið og starfsmenn þess þora ekki að hækka skatta á ríkustu fyrirtæki landsins af ótta við hefndaraðgerðir.
Meðvirknin með fjármálakerfinu er algjör og enginn, nema þá Flokkur fólksins, virðast þora að stinga niður fæti og segja „Hingað og ekki lengra“.
Fyrir utan meðvirknina sem birtist í þessu svari sem og málflutningi þingmanna gegn bankaskattinum, þá standast þessi rök enga skoðun.
Rök sem standast enga skoðun
Helstu rökin gegn hækkun bankaskatts eru að bankarnir muni velta þeim kostnaði út í samfélagið og yfir á neytendur í formi hærri vaxta. Þau rök eru lituð af meðvirkni og ótta og halda ekki vatni.
Í fyrsta lagi er það staðreynd að lækkun bankaskatts hafði engin áhrif á vaxandi þjónustugjöld bankanna eða vaxtaálagningu þeirra. Þjónustugjöld hafa bara hækkað og aukist og vaxtalækkunarferli bankanna hófst í maí 2019, löngu áður en bankaskatturinn var lækkaður. Það var vegna vaxtalækkana Seðlabankans og lífskjarasamninganna sem bankarnir hófu að lækka vexti sína. En vaxtalækkanir bankanna voru ekki í neinu samræmi né hlutfalli við vaxtalækkanir Seðlabankans, ásamt 61% lækkun bankaskatts.
Þrátt fyrir lægri bankaskatt voru vextir um tíma allt að 250% hærri en þeir hefðu átt að vera, hefðu þeir lækkað í réttu hlutfalli við stýrivexti Seðlabankans. Þessa lækkun eiga neytendur enn inni hjá bönkunum, sem er gott að hafa í huga í þeim vaxtahækkunargír sem þeir eru í um þessar mundir.
Í öðru lagi er það staðreynd að á undanförnu ári hafa bankarnir skilað methagnaði. Ekki methagnaði eftir mörg mögur ár. Nei, þvert á móti, eftir mörg feit og góð ár var methagnaður hjá þeim í miðjum alheimsfaraldri og alheimskreppu. Þeir eru því ekki á flæðiskeri staddir og ættu að geta lagt meira til samfélagsins án þess að muna mikið um.
Þessi hagnaður er heldur ekki til kominn vegna gríðarlegra klókinda bankamanna í fjármálum. Dæmin sem sanna að þeir séu vægast sagt mistækir eru nokkuð mörg. Þeir hafa hins vegar alveg einstakan aðgang að heimilum og fyrirtækjum landsins. Auk þess hefur hver ríkisstjórnin á fætur annarri bugtað sig og beygt fyrir þeim í fullkominni meðvirkni og eftirlitsstofnanir lítið haft sig í frammi. Hingað og ekki lengra. Það er kominn tími til að við á Alþingi, sem erum kjörin fyrir fólkið í landinu, til að gæta hagsmuna þess, förum að taka hagsmuni fólksins fram yfir hagsmuni bankanna.
Það er í þessu samhengi sem við þurfum að skoða bankaskattinn:
Bankaskatturinn er minna en 0,2% og myndi ekki ná 0,4% eftir hækkun
Með þessari breytingu myndi bankaskatturinn hækka úr 0,145% í 0,376%, sem er það sem hann var fyrir breytinguna árið 2020. Þetta eru ótrúlega lágar prósentutölur sem um er að ræða, tölur sem ná ekki einu sinni hálfu prósenti, varla nóg til að mælast drukkinn undir stýri. Bankaskatturinn er núna minna en 0,2% og mun ekki einu sinni ná 0,4%, nái þessi tillaga fram að ganga.
Getur sá sem mikið hefur í alvöru kvartað yfir skattahækkun sem nær ekki einu sinni hálfu prósenti?
Bankaskatturinn var lækkaður um 61% á einu bretti árið 2020 og fleiri rök eru fyrir því að hann verði hækkaður aftur en þau sem mæla með því að þessi 61% lækkun fái að standa. Það er einnig auðvelt að færa rök fyrir því að hann ætti að hækka enn frekar enda eru fá fyrirtæki jafn aflögufær og bankarnir, sem mega svo sannarlega við því að greiða meira til samfélagsins.
Bankarnir munu hækka vexti til að ná þessu til baka
Bankaskatturinn mun ekki hafa nein áhrif á hækkun eða lækkun vaxta. Bankarnir munu hækka vexti, alveg sama hvað, sjái þeir minnsta tilefni til þess. Ekki út af hærri bankaskatti, heldur einfaldlega af því að þeir komast upp með það og enginn hefur nokkurn tíma krafið þá um að sýna samfélagslega ábyrgð.
Núna erum við þar að auki að horfa upp á áhlaup á heimili og fyrirtæki landsins með gríðarlegri hækkun vaxta, undir því fororði að það sé okkur fyrir bestu að taka á okkur um sjöfalt meiri byrgðar en verðbólgan leggur á okkur, til hagsbóta fyrir bankana og fjármálakerfið.
Ég ætla ekki að ræða aðgerðir Seðlabankans eða ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni hér, nógu margt hef ég sagt um þær á öðrum vettvangi, en staðreyndin er sú að nú á sér stað ein mesta eignayfirfærsla sem um getur frá almenningi beint í yfirfullar fjárhirslur bankanna sem fagna auðsóttum gróða. Okkur er svo sagt, með nokkru yfirlæti, að við eigum að vera glöð og kyssa vöndinn, því þetta sé allt fyrir okkur og heimilin gert.
Eftir situr að fyrirtæki sem skila methagnaði upp á tugi milljarða ár eftir ár, hafa enga ástæðu til að hækka álögur á viðskiptavini sína, en gera það engu að síður, nú með blessun ríkisstjórnar og Seðlabanka, þrátt fyrir lægri bankaskatt.
Hver er samfélagsleg ábyrgð banka?
Bankarnir eru eins og ríki í ríkinu. Þeir fara sínu fram hvað sem tautar og raular. Fjármunum heimila og fyrirtækja er beint til þeirra eins og enginn sé morgundagurinn. Þeir greiða eigendum sínum, örfáum aðilum, arð sem er mun hærri en 15 milljarðarnir sem þeir myndu greiða til ríkisins eftir hækkkun bankaskatts, og hafa ekki meiri sómakennd en svo að þeir kvarta yfir því að þurfa að greiða eitthvað til samfélagsins og hóta afleiðingum komi hækkanir til.
Þetta eru aðilarnir sem njóta samúðar ríkisstjórnarinnar og, því miður, margra stjórnarandstöðuþingmanna.
Ef þeir sem höllustum fæti standa í samfélaginu nytu viðlíka samúðar yfir því að þurfa að greiða skatta af tekjum sem eru langt undir framfærslumörkum væri löngu búið að hækka skattleysismörk og draga úr tekjuskerðingum almannatrygginga. Þess í stað eru vilyrði fyrir slíku í hverjum stjórnarsáttmálanum á fætur öðrum án þess að neitt breytist.
Þau geta étið það sem úti frýs. Samúðin og skilningurinn fer til bankanna.
Ættu alþingismenn, svo ég tali nú ekki um ríkisstjórn Íslands, ekki að gera kröfu til bankanna um að sýna samfélagslega ábyrgð á erfiðum tímum? Er ekki eitthvað að þegar ríkisstjórnin er svo meðvirk með bönkunum að hún breytir lögum um bankaskatt eftir því hvernig bankarnir haga sér og koma fram, í stað þess að krefja þá um að bæta hátterni sitt? Er ábyrgðarleysi bankanna virkilega svo sjálfsagður hlutur að ríkið einfaldlega leggst niður, í stað þess að krefja bankamenn um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki gagnvart fólkinu í landinu, þó ekki sé nema 0,376 prósent?
Hverju hefur lækkun bankaskatts skilað fyrir neytendur eða ríkissjóð?
Þessu er fljótsvarað. Lækkun bankaskattsins hefur ekki skilað neinu nema minni tekjum í ríkissjóð sem varð af um 6 milljörðum vegna þessarar lækkunar árið 2021. Það hlýtur að muna um minna.
Það er ekki hægt að sýna fram á neinn hagnað neytenda í landinu af lækkuninni. Það er í besta falli hægt að sýna fram á að hann hafi ekki skipt nokkru máli fyrir neytendur, því lækkunin hefur ekki leitt til lægri þjónustugjalda eða vaxta.
Hefur ríkið tapað á lækkun bankaskatts?
Þó svar fjármálaráðuneytið við spurningu Efnahags- og viðskiptanefndar miðist við fjárlagafrumvarp ársins 2023, má augljóslega gera því skóna að um svipaðar tölur hafi verið að ræða fyrir árin 2021 og 2022, enda skiluðu bankarnir methagnaði bæði árin.
Í fyrrnefndu svari kom fram að tekjuaukning ríkissjóðs yrði 9,4 milljarðar. Það má því gera ráð fyrir að tap ríkissjóðs vegna skattalækkunarinnar sé á bilinu 24 – 30 milljarðar á þessum þremur árum. Það eru nokkrir skólar og eitt tvö hjúkrunarheimili.
Eiga skattar á fyrirtæki og heimili yfirleitt nokkurn rétt á sér?
Rök andstæðinga bankaskattsins um að kostnaðinum verði þá bara velt yfir á viðskiptavini bankanna, geta átt við um hvaða skatt sem er. Spurningin er því hvort við ættum bara algjörlega að hætta að skattleggja fyrirtæki yfir höfuð, því þau muni hvort eð er velta þessum sköttum út í verðlag sinnar vöru eða þjónustu? Það sér hver maður í hendi sér að svona rök ganga ekki upp.
Auk þess má alveg minna á að heimilin í landinu borga nærri 37% af tekjum sínum í beina skatta og ofan á það bætast svo óbeinir skattar, t.d. í formi virðisaukaskatts. Fjölskyldur geta ekki talið fram kostnað á móti til að lækka skattbyrði sína, líkt og fyrirtæki. En alþingismenn hafa í alvöru áhyggjur af því að fyrirtækin sem hagnast um tugmilljarða á tugmilljarða ofan á hverju einasta ári, og hafa greitt fjárfestum sínum tugi milljarða í arð undanfarin ár, megi ekki við því að greiða skatt upp á 0,376% án þessF að taka það út á viðskiptavinum sínum. Ég á bara ekki til orð yfir þessari meðvirkni með „aumingja bönkunum“ sem enga samúð þurfa.
Hættum þessari meðvirkni og hækkum bankaskattinn
Með réttu ætti bankaskatturinn að vera mun hærri en um er rætt og ég mælti fyrir, því bankar eru fyrirtæki sem eru aflögufær framar öðrum. Hagnaður þeirra er frá fólkinu í landinu og á að skila sér aftur til þess. Það er til marks um ótrúlega meðvirkni með bönkunum og fjármálakerfinu að við skulum virkilega þurfa að ræða hvort bankarnir eigi að borga bankaskatt upp á 0,145% eða 0,376%. Að við felum okkur á bak við ótta við hefndaraðgerðir, verði ekki verið farið að vilja þeirra í einu og öllu.
Við þurfum að stíga út úr meðvirkni okkar gagnvart bönkunum. Alþingi verður að hafa forgöngu um það. Að draga til baka lækkun bankaskattsins er gott fyrsta skref í þá átt. Fyrirtæki með tugmilljarða í hagnað á hverju ári eiga eins og aðrir, og í raun frekar en aðrir, að leggja sitt til samfélagsins. Svo er það eftirlitsstofnana að fylgjast með því að sá kostnaður verði ekki lagður á fyrirtækin eða heimilin í landinu, hvort sem er í formi vaxta eða annars kostnaðar. — Hættum þessari meðvirkni með fjármagnsöflunum og krefjum þau um samfélagslega ábyrgð.
Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.