Stutta svarið er að það er ekki hægt, möguleikar til lagningar jarðstrengja í raforkukerfinu ráðast af tæknilegum þáttum sem setja því skorður. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu, sérstaklega þegar kemur að úthlutun þeirrar takmörkuðu auðlindar sem jarðstrengir eru.
Áskoranir aukast með hækkandi spennustigi
Flutningskerfi raforku skiptist í grófum dráttum í tvennt. Annars vegar er meginflutningskerfið, stærri flutningslínur sem liggja milli landshluta. Byggðalínuhringurinn telst til meginflutningskerfisins og einnig t.d. stóru stálmastralínurnar frá Þjórsársvæðinu inn á SV-hornið. Hins vegar eru svo landshlutakerfin sem eru byggð upp af minni línum (og oft jarðstrengjum) og tengjast meginflutningskerfinu. Hlutverk landshlutakerfanna er að flytja raforkuna til dreifiveitna innan hvers landshluta.
Í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína segir að meginreglan, við lagningu nýrra flutningslína eða endurnýjun eldri í landshlutakerfum raforku, skuli vera að notast við jarðstrengi – að því gefnu að það sé tæknilega mögulegt og kostnaðarhlutfall miðað við loftlínu sé innan ákveðinna marka. Í meginflutningskerfinu skuli loftlína hins vegar vera meginreglan en svo eru talin upp atriði sem réttlæta það að jarðstrengskostur sé metinn. Þessi skipting er í öllum aðalatriðum sambærileg stefnu um lagningu raflína í öðrum löndum. Spennustigið í landshlutakerfunum er að jafnaði lægra en í meginflutningskerfinu en áskoranir, tengdar rekstri jarðstrengslagna, aukast með hækkandi spennustigi.
Er jarðstrengur tæknilega raunhæf leið?
Þingsályktunin tekur sérstaklega fram að skoða þurfi hvort það sé tæknilega raunhæft að leggja jarðstreng frekar en loftlínu enda er það grundvallarforsenda. Jarðstrengur er þannig uppbyggður að þegar sett er á hann spenna getur hann haft óæskileg áhrif á rekstur kerfisins, til að mynda á spennugæði, vegna svokallaðs launafls sem myndast í strengnum vegna uppbyggingar hans. Það eru ýmsir þættir sem spila þarna inn í, svo sem rekstrarspenna kerfisins, lengd jarðstrengs og styrkur kerfisins á viðkomandi svæði. Kerfisstyrkurinn er mjög misjafn milli landshluta og helstu þættir sem hafa áhrif á hann eru nálægð við virkjanir (og stærð þeirra) og möskvun kerfisins. Af þeim sökum er svigrúm til jarðstrengslagna afar misjafnt milli landsvæða og nauðsynlegt að skoða og meta hvert tilvik fyrir sig.
Jarðstrengir takmörkuð gæði
Jarðstrengslögn í einni línu getur haft áhrif á möguleika til jarðstrengslagna í annarri línu á sama svæði. Því er nauðsynlegt að vinna ítarlega kerfisgreiningu í hverju tilfelli eins og áður segir. Þessi innbyrðis áhrif eiga einnig við á milli spennustiga, til dæmis milli meginflutningskerfis og undirliggjandi landshlutakerfis. Þannig getur jarðstrengslögn í 220 kV línu í meginflutningskerfinu, þó hún sé ekki nema örfáir kílómetrar, haft þau áhrif á undirliggjandi landshlutakerfi (66 kV) að útilokað sé að leggja þar margfalt lengri jarðstreng. Þá er augljóst að verið er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, auk þess sem beinlínis er gengið gegn stefnu stjórnvalda, þ.e. landshlutakerfin eiga að njóta forgangs þegar kemur að úthlutun þeirra takmörkuðu gæða sem jarðstrengir í flutningskerfinu eru. Sem dæmi um þessi innbyrðis áhrif má taka greiningu sem Landsnet hefur unnið þar sem samspilið milli áhrifaþáttanna er þannig að 3 km langur jarðstrengskafli í 220 kV línu í meginflutningskerfinu kemur í veg fyrir lagningu um 40 km langs 66 kV jarðstrengs í undirliggjandi landshlutakerfi.
Umhverfislegur ávinningur
Umhverfislegur ávinningur þess að leggja 40 km jarðstreng í 66 kV línu í landshlutakerfi, frekar en 3 km jarðstreng í 220 kV línu í meginflutningskerfinu á sama svæði, er óumdeildur. Sýnileiki 40 km af 66 kV loftlínu er mun meiri en sýnileiki 3 km af 220 kV loftlínu, auk þess sem 66 kV línan hefur áhrif á mun stærra landsvæði og fleiri landeigendur. Þar kemur einnig að þætti sveitarfélaganna og samfélagslegri ábyrgð þeirra. Það er afar mikilvægt að sveitarfélagið horfi á hagsmuni heildarinnar. Eins og fram kemur í inngangi eru það eðlisfræðilögmál sem ráða því hversu mikið er hægt að leggja af jarðstrengjum á hverju svæði fyrir sig. Það er þáttur sem verður að taka með í reikninginn, til dæmis í skipulagsvinnu sveitarstjórna.
Lagning jarðstrengja í flutningskerfum og rekstur þeirra er áskorun sem öll raforkuflutningsfyrirtæki standa frammi fyrir. Við hjá Landsneti hvetjum almenning til að láta sig þessi mál varða. Það er afar mikilvægt að umræðan sé upplýst og byggð á rökum. Við fögnum því að fá tækifæri til þess að skýra út hluti og ræða saman á málefnalegum grunni.
Höfundur er verkefnastjóri rannsókna á þróunar- og tæknisviði Landsnets.