Efnahagsleg verðmæti sem Ísland skapar á hverja einingu raforku eru þau fjórðu lægstu í víðri veröld á sama tíma og Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims. Raunar framleiða Íslendingar tvöfalt meiri raforku á mann en það land sem kemur næst á listanum. Þetta segir okkur að Íslendingar séu að sóa þeim gríðarlegu verðmætum sem felast í náttúruspillandi orkuöflun. En hvað veldur? Í hvað er raforkan að fara sem veldur svo lélegum efnahagslegum heimtum?
Stóriðjan gleypir stærstan hluta raforkunnar
Skv. tölum Orkustofnunar nota stórnotendur 78% raforkunnar. Þetta er málmbræðsla (álver og kísilver) með 73% og gagnaver með 4% raforkunnar. Íslenskt samfélag notar ekki nema 17% raforkunnar en það sem upp á vantar er orka sem glatast í kerfinu. Málmbræðsla á Íslandi er sum sé í efnahagslegu tilliti afar léleg ráðstöfun á raforku.
Verðmæti sem íslensk náttúra skapar sitja eftir í landinu
Fyrir heimsfaraldurinn var útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar hæst allrar atvinnustarfsemi á Íslandi. Helsta söluvara ferðaþjónustunnar er íslensk lítt röskuð náttúra og stærstur hluti þeirra verðmæta sem ferðaþjónustan skapar verður eftir í íslensku samfélagi. Tekjur í ferðaþjónustu á hvern íbúa hækkuðu um 240% á landsvísu frá árunum 2012 til 2019. Mun fleiri hafa lifibrauð sitt af ferðaþjónustu en orkufrekum málmbræðslum.
Lausnir gærdagsins eru úreltar – ný hugsun óskast
Samtök iðnaðarins og fleiri vilja telja Íslendingum trú um að raforka sem nú fer til stóriðju geti ekki skapað verðmæti nokkurs staðar annarsstaðar en akkúrat þar. Að þeirra mati er eina lausnin að halda áfram að sóa orkunni í álver og annan mengandi iðnað í stað þess að nýta hana skynsamlega í efnahagslegu tilliti. Staðreyndin er að það er mikið afl í fjölbreyttu íslensku atvinnulífi og engin ástæða til að óttast að allt leggist í dróma þó raforkufrek starfsemi verði ekki sett í forgang og íslenskri náttúru spillt. Það skortir ekki önnur og náttúruvænni tækifæri til að tryggja velsæld til langrar framtíðar.
Lausnir gærdagsins sem sköpuðu loftslagsvandann, eins og hin gjaldþrota stóriðjustefna, munu ekki geta leyst hann. Við þurfum nýja og framsækna hugsun þar sem náttúruvernd og loftslagsvernd haldast í hendur um leið og lífsgæði allra verða tryggð. Landvernd hefur sett fram framtíðarsýn þar sem þetta fer allt saman. Hömlulaus ásókn í gæði landsins, eins og sett var fram í skýrslu starfshóps umhverfisráðherra um stöðu og áskoranir í orkumálum, tilheyrir gærdeginum. Framtíðin krefst nýrrar hugsunar, fjölbreytts atvinnulífs þar sem virðing er borin fyrir auðlindunum sem felast í náttúru landsins - og þar sem arðurinn af auðlindunum situr eftir samfélaginu til hagsbóta bæði í nútíð og ekki síst fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.