Þessar síðustu vikur og mánuði hef ég ósjaldan velt því fyrir mér að hversu miklu leyti stjórnmálafólk sem hefur tjá sig um fjárhagsaðstoð, öryrkja og bótakerfið hafi þurft að reiða sig á velferðarkerfið. Því stundum nálgast það fulla vinnu að „díla“ við kerfið og sanna fyrir því að maður sé virkilega veikur. Sem lýsir algerri pattstöðu fyrir veikt fólk; það þarf á lífeyri að halda einmitt vegna þess að það getur ekki unnið. Að hafa fjárhagsáhyggjur ofan í verki og sársauka er ekki uppskrift að öðru lífi en því að tóra. Það tryggir ekki velferð fólks. En þetta er staðan á Íslandi í dag, í fámennu samfélagi svo ríku af auðlindum og auðæfum að líklegast væri hægt að kalla pleisið okkar paradís ef ekki ríkti hér önnur eins misskipting gæða (og norðanvindur).
Sem manneskja sem hefur þurft að lifa með krónískum veikindum frá unglingsaldri get ég vottað til um að það að lifa af bótum býður ekki upp á neitt meira en að tóra. Það velur engin það hlutskipti nema að búa við sárafáa möguleika. Sem manneskja sem lifir með krónískum sjúkdóm sem hefur ekki hlotið viðurkenningu frá kerfinu (ME/síþreytu) get ég einnig vottað til um að það er hægara sagt en gert að fá örorku, endurhæfingalífeyri og jafnvel fjárhagsaðstoð. Það er mjög erfitt og glatað að njóta ekki stuðnings kerfisins þegar maður getur ekki mætt til vinnu vegna veikinda og er þetta í raun örvæntingarfull staða.
Hvað varð til þess að svo öfugsnúnum gildum var leyft að ráða ríkjum í því sem heita á velferðarkerfi?
Hvað varð til þess að svo öfugsnúnum gildum var leyft að ráða ríkjum í því sem heita á velferðarkerfi? Hví er frumforsenda kerfisins sú að allir sé svindlarar sem sanna þurfi sakleysi sitt og veikindi (fyrir nokkra aura?) Það er reyndar ekkert svo flókið að finna svör við þeim spurningum. Þau eru að finna í hugmyndasögu Vesturlanda, sem í einfölduðu máli er einn hrærigrautur kristins siðferðis og réttlætingar á kapítalísku efnahagsfyrirkomulagi og heimsvaldsstefnu. Í bókinni Caliban and the Witch rekur fræðikonan Silvia Federici það hvernig hugmyndir kirkjunnar um fátækt hafi smám saman breyst við upphaf kapítalisma. Á miðöldum sá kirkjan sóma sinn í að hjálpa öllum þeim sem bjuggu við fátækt (og fátækir sættu sig við hlutskipti sitt), en við upphaf kapítalisma varð til hugmyndin um hina verðugu fátæku og þá óverðugu fátæku. Með þessari skiptingu var fólk sem þurfti á hjálp að halda gert varhugavert og sakað um leti og svindl. Federici bendir einnig á hinir óverðugu komu ávallt úr valdaminni stéttum samfélagsins eins og birtist til dæmis í hugmyndinni um Velferðardrottninguna (e Welfare Queen), en sú hugmynd um svarta konu á níunda áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum var notuð af fullum krafti gegn undirskipupum hópum þar í landi.
Gengur velferð fólks út á hversu arðbært fólkið er fyrir „atvinnulífið“ eða „fyrirtækin“ í landinu?
Nú þegar skafað hefur verið innan úr velferðarkerfinu í nafni aðhaldsaðgerða verðum við að spyrja okkur þessara siðferðislegu og pólitísku spurninga: Er fólk afl fyrir vinnumarkaðinn eða starfar ríkið í þágu fólksins? Gengur velferð fólks út á hversu arðbært fólkið er fyrir „atvinnulífið“ eða „fyrirtækin“ í landinu?
Það virðist mér afar brýnt mál að við spyrjum okkur þessara spurninga einmitt núna. Margt bendir til þess að störfum fari fækkandi í heiminum. Tækni og þekking (en ekki kapítalismi) hefur leitt til þess að í raun höfum við gnægð en ekki skort – engu að síður er samfélagsgerð jafnvel ríkustu þjóða heimsins byggð á skorti til þess að réttlæta þá kröfu að fólki vinni eins og vélar – til þess að peningagildi fólks fari eftir vinnukrafti þeirra (og tilfallandi hugmyndum um hæfni). Bandaríski mannfræðingurinn David Graeber hefur bent á að til séu orðin „bullshit jobs“ eins og hann kallar það; tilgangslaus störf við ýmis konar skriffinsku – því fólk þurfi jú að mæta til vinnu til þess að hægt sé að réttlæta það að borga þeim laun (svo þau viðhaldi efnahagskerfinu alveg örugglega sem neytendur), í stað þess að horfast í augu við þá staðreynd að við þurfum alls ekki á 8 tíma vinnudegi að halda – og svo síður sé, velferð okkar allra væri mun betur tryggð ef vinnuvikan væri stytt. Ef aukin þekking og tækni væri nýtt til að auka velferð fólks.
Það er mikilvægt að spyrja þessara spurninga einmitt núna vegna þess að við stöndum á tímamótum. Efnahagskerfið þarf ekki á vinnukrafti okkar að halda mikið lengur, en þeir hugmyndastraumar sem eru við lýði gera okkur varhugaverð ef við fáum ekki vinnu eða getum ekki unnið, ef við pössum ekki í þennan vinnukassa sem allt mælist út frá. Það má vera að velferðarkerfið hafi frá stofnun að einhverju leyti miðast við hina kapítalísku kröfu um arðbært vinnuafl, en það þýðir ekki að framtíðin þurfi að bera slíkt velferðarkerfi í skauti sér. Það er kominn tími til þess að við umbreytum kerfinu á þann hátt að það spyrji fyrst um líðan fólksins í stað þess að véfengja orð þess og vitnisburð.
Það myndi breyta svo miklu að búa ekki við þessa stöðugu tortryggni. Að fá rými til þess að læra að lifa við þær forsendur sem manni hefur verið úthlutað en ekki vera þröngvað í mót vinnukerfis sem er að líða undir lok.