Í kosningabaráttunni til embættis forseta Bandaríkjanna hét Joe Biden því að fella niður skuldir 43 miljóna námsmanna við alríkissjóð en heildarskuldir þeirra nema nú um 1,7 biljónum dala, eða að meðaltali um 40 þúsund dölum á hvern námsmann. Afborganir af námslánum vega þyngst allra lána bandarískra heimila, eru t.d. þyngri en afborganir af krítarkortum eða af bílalánum, og er fjórðungur námslána í vanskilum.
Árið 2020, í byrjun Covid-19 faraldursins, frysti Biden afborganir af námslánum fram á sumarið 2022. Nú er komið að skuldadögum. Hvað ætlar hann að afskrifa mikið af skuldum námsmanna? Kosningar verða þar í landi í haust og mun þetta mál örugglega ráða úrslitum kosninganna ásamt afleiðingum stríðsrekstursins í Úkraínu, sem hefur hleypt af stað mikilli dýrtíð um allan heim. Verðbólga mælist nú 8,5% í Bandaríkjunum. Ástandið í efnahagsmálum þar er slæmt og á eftir að versna.
Sömu sögu er að segja af ástandinu hér heima. Verðbólgan, landsins forni fjandi, er komin af stað og mælist nú 7,2% á ársgrundvelli. Það þýðir að námsmaður, sem skuldaði fjórar miljónir króna fyrir ári, skuldar nú um 4,3 miljónir króna. Launin hafa auðvitað ekki hækkað sem þessu nemur, að frátöldum launum alþingismanna og ráðherra, hvað þá eftirlaun og örorkubætur en eftirlaunamenn og öryrkjar verða verst úti í efnahagskreppunni.
Frumvarpið fékkst ekki rætt þá og var endurflutt nokkrum sinnum, nú síðast af Guðjóni S. Brjánssyni, Oddnýju G. Harðardóttur og Loga Einarssyni árið 2017.
Nú stefnir allt í það að kosningar verði haldnar í haust. Ég vil hvetja stjórnvöld til að upplýsa kjósendur um stöðu mála hvað varðar námslánin. Hver er stefnan? Einnig vil ég hvetja stéttarfélög til að beita sér í málinu, en það hefur orðið algjörlega út undan við allar aðgerðir og leiðréttingar í kjölfar Hrunsins.
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur.