Ég heiti Kári Árnason og er 26 ára gamall sjúkraþjálfari. Ég er félagsmaður í Bandalagi háskólamanna (BHM) og upplifi það nú í fyrsta skipti á ævinni hvernig það er að berjast fyrir bættum kjörum og því að menntun sé metin til launa á Íslandi, er félagar mínir í BHM standa í verkfallsaðgerðum líkt og alþjóð veit.
Þegar fréttir um mögulegar verkfallsaðgerðir fóru að heyrast snemma á þessu ári varð mér hugsað til barnaskólaáranna þegar grunnskólakennarar fóru í verkfall. Við vinirnir fengum þá allt í einu langt og gott frí til þess að leika okkur allan daginn án þess að þurfa að mæta í skólann og nutum þess eflaust alveg í botn.
Í dag starfa ég á bæklunarskurðdeild Landspítalans og fæ því áhrif verkfalls BHM beint í æð. Ljóminn af æskuminningunum kennaraverkfalllsins er alveg horfinn. Að vera í verkfalli er sko ekkert grín! Að berjast fyrir því að fá mannsæmandi laun fyrir þá vinnu sem maður sinnir er ekkert grín! Hefðbundin starfsemi bæklunarskurðdeildarinnar hefur legið niðri frá því að verkfallsaðgerðir BHM hófust en engar skipulagðar aðgerðir, líkt og liðskiptaðgerðir fyrir hné og mjaðmir, hafa verið gerðar frá því að verkfallið hófst. Biðlistarnir halda áfram að lengjast (nógu mikið lengdust þeir í læknaverkfallinu) með tilheyrandi skerðingu á lífsgæðum fólks sem sumt á erfitt með að sinna sínum daglegum störfum vegna þeirra óþæginda sem fylgja því þegar stoðkerfi líkamans er farið að kvarta.
Landspítalinn, eins og oft hefur komið fram í fjölmiðlum, er og á að vera flaggskip íslenska heilbrigðiskerfisins. Flaggskipum fylgir iðulega ákveðinn glæsileiki líkt og nafnið gefur til kynna. Sterkar stoðir, stór og glæsileg segl og sterkur skipstjóri sem er þó algjörlega gagnslaus ef með honum er ekki áhöfn í hæsta gæðaflokki. Til þess að halda uppi þessum glæsileika þarf hins vegar ákveðið viðhald. Bæði á flaggskipinu sjálfu og á áhöfninni.
Ég er stoltur af því að vera starfsmaður Landspítalans. Fyrir ungan heilbrigðisstarfsmann sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum er ekki hægt að finna betri vettvang til þess að undirbúa mann fyrir þann krefjandi starfsvettvang sem heilbrigðiskerfið er. Á þessum tveimur árum sem ég hef starfað á Landspítalanum hef ég hins vegar séð að viðhaldi þessa svokallaðs „flaggskips“ íslenska heilbrigðiskerfisins er engan veginn sinnt nægilega vel. Þá hvorki á skipinu né áhöfninni. Hægt er að benda á hluti eins og laun, vinnuaðstöðu, álag starfsfólks, aðstöðu sjúklinga, húsnæðisvanda og í raun er listinn ansi langur. Um þessi atriði hefur verið rætt oft og mörgum sinnum, bæði í fjölmiðlum og á Alþingi. Ef að Landspítalinn á að halda áfram að vera heillandi vinnustaður fyrir ungt fólk sem hyggur á starfsferil í heilbrigðiskerfinu verður eitthvað að fara gerast! Jákvæð teikn eru á lofti um byggingu nýs Landspítala við Hringbrautina og bætta aðstöðu í húsnæðismálum en það er ekki nóg. Ef launamálin verða ekki löguð þá stefnum við í strand. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það launin sem skipta hvað mestu máli. Auðvitað er mikilvægt að hafa gaman af starfinu og njóta þess að mæta til vinnu en það er afskaplega erfitt að lifa á hamingjunni einni og sér. Ég starfa einnig á einkarekinni sjúkraþjálfarastofu og fæ því að sjá svart á hvítu hvernig þessum launamálum er háttað.
Ríkisstjórn Íslands og Læknafélagið sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þegar læknaverkfallinu lauk um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Um þessa yfirlýsingu var rætt á samstöðufundi félagsmanna BHM á Landspítalanum fyrr á þessu ári og einn ræðumannanna spurði salinn: „Hafiði heyrt um deildina sem opnaði og innihélt bara tvo lækna? Vitiði hvaða starfsemi átti sér stað á fyrsta degi? Engin!“ Með fullri virðingu fyrir læknastéttinni og þeirra ómetanlega starfi þá er heilbrigðiskerfið okkar ekki bara byggt upp á læknum. Ekki frekar en 11 manna knattspyrnulið er bara byggt upp á sóknarmönnum. Við erum í þessu öll saman, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, læknar, geislafræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraliðar og svo mætti lengi telja. Við erum öll í sama liðinu þótt að hlutverk okkar innan liðsins séu ólík. Markmiðið okkar er það sama. Að viðhalda sterku og öflugu heilbrigðiskerfi á Íslandi. Til þess að það sé mögulegt verða þeir sem stjórna þessu landi að fara vakna og átta sig á því. Bensínljósið er búið að vera blikkandi alltof lengi. Laun háskólamenntaðs fólks í landinu verður að bæta og ríkisstjórnin verður að fara að meta menntun til launa!
Höfundur er sjúkraþjálfari.