Nú geta þeir sem fjasa hve mest um allt „kjaftæðið á heimsráðstefnum“ tekið gleði sína því varla er stóru loftslagsráðstefnunni (COP 27) lokið þegar önnur hefst. Hún er um líffræðilegan fjölbreytileika (COP 15) – í Montreal frá 7. desember. Það er ekki af tómum illviljuðum partígangi sem fólk safnast saman aftur til fundar. Þetta hugtak, líffræðilegur fjölbreytileiki, er frekar stirt þótt gagnsæi íslenskunnar hjálpi. Lítum frekar svona á málið: Síðustu 50 ár hefur mannkyn eytt 70% af lifandi dýrum, plöntum, fuglum og hryggleysingjum.
Titillinn á þessari grein – árás – er ekki eitthvað sem ég fann upp heldur viðtekin lýsing á ástandi sem einnig er kallað „sjötta útrýmingin“. Sú sjötta, því fimm sinnum áður hefur næstum orðið aldauði á jörðinni af því að stórkostlegar náttúrulegar hamfarir gengu yfir. Þessi, sú sjötta, er hins vegar sú eina sem er af mannavöldum.
Einhver hefði kannski haldið að þetta væri nægt tilefni til að kalla saman fund. Ekki síst vegna þess að hrun vistkerfanna er talin jafn stór ógn við líf á jörðu og loftslagsváin - eða jafnvel stærri.
Hvar á að byrja?
Best er að byrja svona: Á síðustu 50 árum meira en fjórfaldaðist heimshagkerfið meðan vistkerfin hrundu. Svo einfalt er samhengið en samspilið á milli orsaka og afleiðinga auðvitað ótrúlega flókið. Niðurstaðan er að mannkyn (sem fjórfaldaðist næstum því á sama tíma) hefur þanið sig út yfir öll skilgreind þolmörk jarðar. Þetta 50 ára tímabil er kallað „hröðunin mikla“. Þess vegna lýsti aðalritari Sameinuðu þjóðanna því yfir í skýrslu Umhverfisstofnunar SÞ 2021 að stríðinu yrði að linna og menn yrðu að „friðmælast“ við náttúruna. Ári áður höfðu nær 90 þjóðarleiðtogar lýst yfir „neyðarástandi á jörðinni“ og snúa yrði við hruni vistkerfanna fyrir 2030. Hagkerfin yrðu að verða náttúruvæn:
„Neyðarástand ríkir á jörðinni: … Vísindin sýna okkur ljóslega að skaði á líffræðilegum fjölbreytileika, spjöll á landi og hafi, mengun, auðlindaþurrð og loftslagsvá halda áfram hraðar en nokkru sinni fyrr. Þessi hröðun veldur óbætanlegu tjóni á vistkerfum sem eru undirstaða lífs og bæta enn á fátækt og ójöfnuð, hungur og vannæringu.“
Ekki nóg með það. Hefjast þarf handa við að endurreisa vistkerfin og vinna aftur það sem nú hefur tapast. Þetta var einmitt í lok „áratugar líffræðilegs fjölbreytileika“ þegar ekkert af settum markmiðum hafði náðst. Niðurstaðan: Neyðarástand.
Um þetta segi ég í bók minni Heiminum eins og hann er svo enginn fyllist óþarfa bjartsýni:
„Í 200 ára sögu iðnveldanna, nútímastjórnmála, klassískra hagfræða og heimspeki höfum við aldrei upplifað annað eins. Aðferð okkar til að hugsa um heiminn, stjórna lífi okkar og skapa framtíð er úrelt.“
Vistkerfi eða hagkerfi?
Krafan er um algjöran viðsnúning. Vistkerfin verði ekki lengur i „þjónustu“ hagkerfanna, heldur öfugt. Náttúruvænt og vistvænt fyrst. Í Heimurinn eins og hann er fer ég ítarlega í gegnum röksemdarfærsluna, því þetta ástand er auðvitað ekkert annað en hræðilegt. Nauðsynlegt er að átta sig á hinni hagfræðilegu rökvillu sem er undirstaðan fyrir þróun á iðntímum: Að náttúran sé ókeypis. Kostnaðurinn við að eyða vistkerfum og náttúruauðlinum reiknast ekki inn í viðkiptamódel mannkyns gagnvart Móður náttúru. Þetta er rakið eftirminnilega i The Economics of Biodiversity: The Dasgupta Review sem kom út 2021 og ég fer yfir í bók minni.
Þar segir Partha Dasgupta í skýrslu sinni til bresku ríkisstjórnarinnar um viðfangsefnin eftir stríð og kreppuna miklu:
„Hagrænu viðfangsefnin sem þurfti að taka á með hraði voru best leyst með því að taka náttúruna ekki með í reikninginn. … Það lá beint við að einbeita sér að því að byggja upp framleiðsluauðmagn (vegi, vélar, byggingar, verksmiðjur og hafnir) og svo það sem við köllum í dag mannauð (heilsu og menntun). Að flækja málin með auðmagni náttúrunnar hefði íþyngt lausnum á vandanum sem við blasti.”
Í skýrslu Umhverfisstofnunar SÞ (Making Peace with Nature, 2021) er þessu lýst svona: „Við verðum að hætta að beita þekkingu, mannviti, snilli og tækni til að breyta náttúrunni, til þess vegar að breyta sambandi manns og náttúru“. (Heimurinn eins og hann er).
Hagsmunir
Árásin á vistkerfin byggist auðvitað á miklum hagsmunum sem hafa engan áhuga á grundvallarbreytingu. Það á ekki bara við um „vonda auðhringi“ heldur einnig ríkisstjórnir og efnahagsbandalög sem mörg lúta almannavaldi. Ríki heims niðurgreiða skaðlegan landbúnað, skógarhögg, landeyðingu, vatnsþurrð og ólöglegar fiskveiðar um sem nemur meira en 500 milljörðum dollara árlega. Fimm sinnum hærri upphæð en lagt er til í „bótasjóð” vegna loftslagsmála. Ríkin niðurgreiða tjónið. Þeir sem græða á hinum kantinum, í einkaframtakinu eða afbrigði af því, hafa ekki nokkurn áhuga á því að „greiða fullt verð“ fyrir arðránið. Minnst af því tjóninu er vegna þess að fátækt fólk berst í bökkum. Þvert á móti. Það eru ríku löndin og atvinnuvegir þeirra sem mestum skaða valda. Pólitískir og efnahagslegir hagsmunir eru svo samtvinnaðir að það þarf meira en auðugt ímyndunarafl til að láta sér detta í hug hvernig skipta eigi um forrit í kerfinu. Þegar 96% af massa spendýra á jörðinni eru menn og húsdýr þeirra tala fáir máli músa og fíla sem eru villt og í algjörum minnihluta.
Grundvallarbreyting er samt það eina sem kemur til greina því svona gengur þetta ekki lengur. Það er hins vegar óhemju erfitt að ímynda sér hvernig sú breyting gæti litið út og ekki síður hvernig í veröldinni ætti að koma henni í framkvæmd. Hér duga engar smáskammtalækningar og það munar ekki neitt um hvert örstutt skref. Hrunið er á fullu.
Þess vegna er óhætt að hætta að fjasa og óska fólkinu á COP 15 góðs gengis.
Stefán Jón Hafstein er höfundur bókarinnar Heimurinn eins og hann er og eru myndir úr henni ásamt skýringarmynd frá WWF.