Margir finna til vonleysis gagnvart þeirri loftslagsvá sem mannkynið stendur frammi fyrir. Stöðugt berast fréttir af náttúruhamförum sem rekja má beint eða óbeint til losunar gróðurhúsalofttegunda, og sem munu verða æ tíðari ef losun dregst ekki verulega saman. Þrátt fyrir það hafa fá ríki heims stigið þau skref sem nauðsynleg eru til að bregðast við vánni. Engin ein þjóð getur leyst þetta alþjóðlega vandamál upp á sitt einsdæmi, og því er kannski skiljanlegt að margir spyrji: Skiptir einhverju máli hvað litla Ísland gerir í þessum efnum? Sama hvað við gerum verða loftslagshörmungarnar sífellt verri ef stærri þjóðir breyta ekki um stefnu.
Viðhorf svipað þessu má lesa úr grein Karls Gauta Hjaltasonar, þingmanns Miðflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu þann 17. þessa mánaðar. Þar segir hann: „Margir láta nú sem svo að Ísland geti bjargað heiminum með aðgerðum og snúið við losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Þar verður að hafa í huga að Ísland ber ábyrgð á um 0,012% af heildarlosun heimsins.“
Hlutfallið sem Karl Gauti nefnir er nærri lagi ef losun Íslands án alþjóðasamgangna og landnotkunar árið 2019 er borin saman við heildarlosun það ár. Heildarhlutfallið er hins vegar hærra. En hvað um það; hvernig sem á það er litið er heildarlosun Íslands af gróðurhúsalofttegundum mjög lítil samanborin við heildarlosun allra ríkja.
En er þetta virkilega rétt nálgun til að meta hvort það skipti máli að Ísland taki sig á í loftslagsmálum? Við örlitla umhugsun ætti flestum að verða ljóst að svo er ekki. Þótt við Íslendingar getum ekki stöðvað loftslagsbreytingarnar upp á okkar einsdæmi, getum við dregið úr þeim og neikvæðum afleiðingum þeirra. Í því samhengi má nefna að vænta má að árleg losun Íslands undanfarin ár muni valda rúmlega þúsund dauðsföllum vegna loftslagsbreytinga á árunum 2020 til 2100 (flestum í fátækari löndum). Til mikils er sem sagt að vinna: Með því einu að draga losun Íslands saman um eitt prósentustig t.d. árið 2019 hefði mátt vænta þess að tíu mannslífum væri bjargað fram til ársins 2100.
Ofangreindar tölur byggja á rannsókn frá Columbia-háskóla í Bandaríkjunum þar sem reynt var að leggja mat á áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda á „umframdauðsföll“ (e. excess deaths) vegna loftslagsbreytinga. Niðurstaðan varð meðal annars sú að miðað við heildarlosunina eins og hún var árið 2020 hefði mátt draga úr væntanlegum dauðsföllum vegna loftslagsbreytinga fram til ársins 2100 um 226 með því að minnka losunina um þúsund kílótonn. Samkvæmt Umhverfisstofnun hefur árleg losun Íslands undanfarin ár verið hátt í fimm þúsund kílótonn (án alþjóðasamgangna og landnotkunar). Á hverju ári hefðum við á Íslandi sem sagt getað bjargað tvö hundruð mannslífum með því að draga losunina saman um fimmtung.
Mat á borð við þetta er að sjálfsögðu háð mikilli óvissu. Ómögulegt er að meta með nákvæmni hve mörgum mannslífum við getum bjargað með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Engu síður er augljóst að til mikils er að vinna. Þeir sem telja vert að bjarga mannslífum geta haft þetta í huga við Alþingiskosningarnar á laugardag. Kosningaúrslitin munu vissulega ekki „bjarga heiminum“, né koma í veg fyrir loftslagsbreytingarnar. En þau geta haft áhrif á hversu margir munu deyja vegna þeirra.
Höfundur er dósent í hagnýtri heimspeki við Stokkhólmsháskóla og ráðgjafi í loftslagsmálum hjá Institutet för framtidsstudier í Stokkhólmi.