Kæru þingmenn,
vinsælt er að setja sér áramótaheit þegar nýtt ár fer að nálgast; fara oftar í ræktina, gera fleiri góðverk, keyra bílinn minna. Nú er árið 2022 að líða og 2023 að ganga í garð og líklegt að mörg séu farin að brjóta heilann um möguleg áramótaheit. Okkur langar að veita ykkur innblástur og leggja til eitt áramótaheit sem þið getið sett ykkur: að taka þátt í Veganúar.
Fyrsti mánuður nýs árs er janúar, en hann hefur einnig verið tileinkaður grænkeralífsstílnum undir heitinu Veganúar. Í þessum mánuði er fólk hvatt til að tileinka sér grænkeralífstíl með því að hætta neyslu á dýraafurðum í einn mánuð og sjá hvernig þeim líkar.
Fólk gerist grænkerar af margvíslegum ástæðum. Fjölmörg taka upp plöntumiðað mataræði vegna jákvæðra áhrifa á eigin heilsu enda sýna rannsóknir að grænkera mataræði dragi úr blóðþrýstingi, kólesteróli og líkum á ýmsum sjúkdómum. Önnur gerast grænkerar vegna nýs gildismats sem setur líf og velferð dýra sem og umhverfið ofar þeirri skammtímanautn sem neysla dýraafurða veitir. Dýraafurðir hafa nefnilega mikil og neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og loftslag jarðar vegna ósjálfbærar landnotkunar, áburðanotkunar, og losunar gróðurhúsalofttegunda sem veldur útrýmingu viðkvæmra tegunda og loftslagsbreytingum. Plöntufæði kemur þar að auki í veg fyrir þjáningu og ótímabæran dauða saklausra dýra.
Ungir umhverfissinnar og Samtök Grænkera á Íslandi skora því hér með á ykkur, kæru þingmenn, til að taka þátt í Veganúar. Hefjið árið 2023 með ákvörðun í þágu siðferðis, umhverfis og framtíð okkar allra.
Við vonum að þið takið þessari áskorun sem flest og hvetjum ykkur til að mæta á upphafsviðburð Veganúar sem haldinn verður 3. janúar í Bíó Paradís.
Höfundar eru loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna og ritari Samtaka grænkera á Íslandi.