Það var fróðlegt að lesa ræðu sem Már Guðmundsson flutti á ráðstefnu í Dublin á vegum stofnunar sem fjallar um alþjóða- og Evrópumál (Institute of International and European Affaris). Í ræðunni ræddi Már um fjármálakreppuna, eftirleik hennar og hvernig Ísland hefði glímt við erfiðleikana.
Það þarf stundum að minna á það, hversu ótrúlegri atburðarás Íslendingar eru hluti af í gegnum stofnanir sínar og innviði þessa dagana. Þegar spilaborgin féll haustið 2008 hefur meira og minna allur kraftur í íslenskri stjórnsýslu, fjármálakerfinu og atvinnulífinu farið í að endurreisa hagkerfið, koma hlutunum af stað á nýjan leik. Í stórum dráttum hefur það gengið vel, þó ýmislegt sé enn óunnið og alltaf megi deila um aðgerðir og aðgerðarleysi. Bölmóður er kannski hávær í hinu daglega þrasi, en á heildina litið, á þessum tæpu sjö árum sem liðin eru frá algjöru efnahagshruni, er með ólíkindum hvernig til hefur tekist við koma hlutunum af stað. Auk þess er gagnrýnin umræða mannbætandi og hluti af því að glíma við erfið vandamál. Án hennar eru minni líkur á því að rétt ákvörðun verði tekin á hverjum tíma.
Það er ekki stjórnmálamönnum að þakka, nema þá lítið eitt. Slíkt hefur sundurlyndið verið í þeirra röðum allt frá því að efnahagshrunið stóð sem hæst. Þá reyndu þeir að grafa undan hvor öðrum og sýndu engin merki um að ná samstöðu með þjóðarhagsmuni að leiðarljósi. Þegar rykið er sest núna, þá sést það vel hversu arfavitlaust þetta sundurlyndi var í ljósi þeirra miklu erfiðleika sem var verið að glíma við. Skylmingar stjórnmálamanna skipta engu máli í samhengi við vandamálin sem ógnuðu almannahagsmunum.
Eins og fram kemur í viðtali við Má, sem hann veitti írskri útgáfu Independent, þá gat Ísland ekkert annað gert, en nákvæmlega það sem var gert með neyðarlögunum. Öll sund voru lokuð, og aðgerðin öll einstök og óumflýjanleg. Önnur ríki voru líka að glíma við allt önnur vandamál, eins og þessi mynd, úr ræðu Más, sýnir ágætlega. Hlutfallsleg vandamál voru miklu stærri hér á landi en annars staðar og bakbein í alþjóðavæddum seðlabönkum var ekki fyrir hendi.
Fyrir svo utan innanmeinin, sem hafa verið kynnt almenningi með frumgögnum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þau eru af slíkri stærðargráðu, að annað eins hefur aldrei sést. Þetta kunna að hljóma sem stór orð, en þau eru engu að síður rétt.
Eins og þessa dagana er leitt fram fyrir dómstólum, þá fjármögnuðu bankarnir eigin hlutafé langt umfram lagaheimildir, og þeir sem útsýni höfðu af Kínamúrnum vissu það vel. Kaupþing t.d. fjármagnaði sjálfur alla stærstu hluthafa bankans og þar með eigið hlutafé. Landsbankinn og Glitnir virðast báðir hafa fjármagnað eigin hlutafé töluvert umfram 10 prósent hámark í lögunum, en myndin virðist mun ýktari hjá Kaupþingi. Það verður að koma í ljós hvernig dómstólar taka á þessu, þegar öll kurl verða komin til grafar, en eitt liggur fyrir, og það er að eigið fé bankanna var að stóru leyti bara froða, þvert á það sem ársreikningar þeirra sögðu til um. Það kom í ljós strax við fall þeirra.
Þessi mynd segir mikið um hvernig staðan var hér á landi, í samanburði við útlönd
Á næstunni mun skýrast hvernig mun takast að losa almenning undan byrðunum sem slitabú hinna föllnu banka hafa verið fyrir hagkerfið allt frá falli þeirra haustið 2008. Vonandi mun stjórnmálamönnum takast að standa saman um að gera sem allra best úr stöðunni, því skuldbindingin í því verkefni er við komandi kynslóðir. Þær eiga skilið að standa frammi fyrir tækifærum í opnum alþjóðavæddum heimi, frekar en lokuðum ömurlegum haftabúskap. Þó mikill árangur hafi náðst, eins og Már kom inn á í ræðu sinni, þá getur hann farið fyrir lítið ef ekki tekst að stíga árangursfull skref út úr haftabúskapnum.