Í seinasta tölublaði Reykjavíkur, vikublaðs, birtist viðtal við Hjálmar Sveinsson, formann skipulagsráðs borgarinnar, þar sem hann útskýrir af hverju ýmsir eigendur lóða í miðbænum fá að byggja jafn há og stór hús og raun ber vitni þrátt fyrir að það verði á kostnað umhverfisins og rýri gildi gamla bæjarins.
Þetta skýrir hann með því að áður en núverandi borgarstjórn tók við völdum hafi verið búið að samþykkja deiliskipulag þar sem byggingarmagn og –hæð viðkomandi húsa hafi verið ákveðin. Ef borgarstjórn myndi nú breyta deiliskipulaginu til að koma í veg fyrir að húsin yrðu byggð jafn há og stór myndu lóðarhafar geta með réttu krafist skaðabóta af borginni sem gætu numið svimandi upphæðum, segir hann. Borgarstjórn telur að þessar hugsanlegu skaðabætur kynnu að verða svo verulegar að það sé fremur í hag borgarbúa að láta það yfir sig ganga að rýra gildi gamla bæjarins.
Hjálmar segir: „Það er í raun þannig að skipulagsheimildir sem eru veittar í deiliskipulagi, þær í rauninni gildi um alla eilífð.“
Þetta er sem sagt túlkun hans og ber hann fyrir sig sjónarmið lögfræðinga í röðum embættismanna borgarinnar.
Ekki er samt fráleitt að ætla að hann hafi verið valinn til forystu í skipulagsráði meðal annars vegna skeleggrar umfjöllunar og gagnrýni hans á skipulags- og byggingarmál Reykjavíkur á nokkurra ára tímabili fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2010.
Nú er hann þeirrar skoðunar að þeir stjórnmálamenn sem fara með völdin í borginni séu að þessu leyti áhrifalitlir og verði að láta yfir sig ganga að menningarverðmæti gömlu borgarhlutanna séu skert í valdatíð þeirra vegna þess að fyrri valdhafar hafi gefið til þess leyfi. Ekki er útilokað að skoðanir Hjálmars kunni að hafa breyst frá því hann var í framboði fyrir minnihlutann en í viðtalinu segir hann þó skýrt og skorinort að hann telji að þessi áhersla á eignarréttinn gangi gegn almannahagsmunum.
Í 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir um aðalskipulagsáætlanir:
- „Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun... byggðamynstur ... og umhverfismál. ...
- Í aðalskipulagi skal marka stefnu til a.m.k. tólf ára.“
Í 37. grein um deiliskipulag segir m.a.:
- „Við gerð deiliskipulags skal byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit.“
...„Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru með gerð húsakönnunar.“
...„Við deiliskipulagsgerð í þegar byggðu hverfi getur sveitarfélag ákveðið að skilgreina afmarkað svæði sem þróunarsvæði þar sem vinna skal hefðbundið deiliskipulag. Í slíkri áætlun skal tilgreina framkvæmdatíma áætlunarinnar sem skal vera a.m.k. fimm ár en ekki lengri en fimmtán.“
Í 43. gr. um breytingar á deiliskipulagi:
- „Nú telur sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi og skal þá fara um breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.“
Í 12. grein laganna segir m.a.:
- „Svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag.“
Satt besta að segja skil ég ekki hvernig sá fyrrum vaski gagnrýnandi getur látið hafa eftir sér aðra eins vitleysu að skipulagsheimildir sem eru veittar í deiliskipulagi gildi um alla eilífð.
Í skipulagslögum er beinlínis kveðið á um skyldu sveitarstjórnar til þess að láta vinna aðalskipulag á grundvelli almannahagsmuna og þegar eldra deiliskipulag stangast á við nýtt aðalskipulag er það aðalskipulagið sem er rétthærra og veldur því að breyta verður deiliskipulaginu.
Í skipulagslögum er beinlínis kveðið á um skyldu sveitarstjórnar til þess að láta vinna aðalskipulag á grundvelli almannahagsmuna og þegar eldra deiliskipulag stangast á við nýtt aðalskipulag er það aðalskipulagið sem er rétthærra og veldur því að breyta verður deiliskipulaginu. Og sá sem telur að verðmæti fasteignar hans hafi rýrnað vegna breytingar á skipulagi, umfram það sem á við um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, þarf að sýna fram á að um skerðingu sé að ræða. En það hefur aldrei gerst að sýnt hafi verið fram á slíkt. Þar að auki er byggingarréttur samkvæmt skipulagi ekki fasteign í orðsins fyllstu merkingu heldur réttur sem fylgir fasteign á meðan deiliskipulag heldur gildi sínu. En deiliskipulaginu ber lögum samkvæmt að breyta við ákveðnar aðstæður, t.d. þegar aðalskipulagi hefur verið breytt og breytingin ómerkir deiliskipulagið. Byggingarréttur er því eðli málsins tímabundinn við gildistíma deiliskipulags.
Vissulega er það satt og rétt að óvissa ríkir um hve víðtækur skaðabótaréttur lóðarhafa kunni að vera ef byggingarréttur hans er skertur með nýju deiliskipulagi. Um þetta segir m.a. í 51. grein: „Leiði skipulag eða breyting á skipulagi til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá er getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi.“
Eins og fyrr segir hefur aldrei komið að nokkur lóðareigandi hafi getað sótt slíkar bætur eftir að hafa sýnt fram á tjón vegna breytingar á skipulagi. Þetta kemur líka fram í viðtalinu við Hjálmar en hann virðist vera þeirrar skoðunar að mjög líklegt sé að lóðareigendur myndu hljóta slíkan rétt ef núverandi borgarstjórn kysi að framfylgja því sem hann telur að sé almenningi í hag.
Hvað á maður að halda? Er þetta hræðsla við að stjórna? Er þetta bara slappleiki? Eða er raunverulegur vilji borgarstjórnar að láta þróun gamla bæjarins ráðast af fjárhagslegum hagsmunum einstakra lóðareigenda?
Ekki veit ég hvert svarið er þrátt fyrir að hafa lesið viðtalið en Hjálmar ber þar fyrir sig álit löglærðra embættismanna. Mér er nú samt í fersku minni að Páll Líndal borgarlögmaður sem lét sér annt um gamla bæinn var þeirrar skoðunar að ólíklegt væri að breyting á skipulagi sem ætti sér rætur í breyttu gildismati á sögulegum hlutum borgarinnar gæti skapað skapabótarétt nema í undantekningartilvikum.
Mér finnst þessi málflutningur ekki vera samboðinn stjórnmálaafli sem segist bera hag almennings fyrir brjósti.
Fyrirsögn forsíðufréttar Reykjavíkur vikublaðs, þennan sama dag er „Steinrunnin lögfræði gegn almannahagsmunum“ og er þar vísað í viðtalið við Hjálmar í blaðinu. Sannarlega er þörf á því að endurbæta löggjöfina og kveða skýrar á um rétt og skyldu sveitarfélaganna til þess að endurbæta skipulagsáætlanir með almannahag að leiðarljósi og takmarka bótaskyldu þeirra. Þetta hefur reyndar verið ljóst í nokkra áratugi. Á þessu þarf að vinna bráðan bug.
En auðvitað á borgarstjórn strax að beita þeim lagalegu heimildum sem sannarlega eru fyrir hendi til þess að hnekkja skipulagsákvæðum sem valda skaða á gamla bænum. Í fyrsta sinn sem það verður gert ætti að velja til þess byggingarmál sem gæti orðið fordæmi og þar sem fjárhagslegri áhætta borgarinnar væri innan hóflegra marka.
Höfundur er arkitekt.