Var það ekki Club of Rome sem á sjöunda áratug liðinnar aldar birti fyrstu skýrsluna sem athygli vakti um mengun og þann nöturlega vanda sem plagaði Móður Jörð? Aðeins ein jörð, var einkunnarorð sem undirstrikaði ásigkomulag hennar. Margir hrukku við en flestir ypptu öxlum sögðu fullir meðaumkunar, þetta enn eina dómsdagsspána. Sú vísbending hefur síðan verið að sannreynast og taka á sig nýjar og víðtækari myndir, allt frá því að taka til mengunar gróðurfars og sjávar til loftlagshamfara, eins og sumir vilja kalla það sem framundan er, þar sem saman fer mengun jarðar, sjávar og andrúmslofts að viðbættum gróðurhúsaáhrifum og mikillar hlýnunar himinhvolfsins. Skýrslur vísindamanna frá öllum heimshornum hafa verið að blása í sama lúður og hrópa örvæntingarfullt: Gerið ráðstafanir strax okkur liggur á því enn er tíminn ekki alveg útrunninn.
Kynslóð sóunar
Við erum kynslóð sóunar og mengunar, óhófs og allsnægta. Við höfum gert sóun að lífsmáta sem við viljum ógjarnan missa, en reynum að finna ódýrar undankomuleiðir. Neyslusæknin með alla sína ódýru Kína-framleiðslu og löngu flutningaleiðir er komin yfir þolmörkin. Við höfum snúið allri skynsamlegri hugsun á haus og þar erum við Íslendingar fremstir í flokki. Í stað þess að miða eftirspurn okkar við sjálfbæra getu auðlindanna, viljum við aðlaga auðlindirnar að löngun okkar og sóunarfýsn. Það er orkan sem gerir þetta mögulegt. Hún er lykillinn. Þess vegna er enn kallað eftir fleiri vatnsafls virkjunum, dýpri heitavatns borunum, nýjum vindmyllum. Svokölluð græn orka er eftirsótt, markaðurinn nægur. Hún er þó ekki græn nema að hluta. Uppistöðulónin fyllast. Hvað þá? Fara úr Hálslóni yfir í Eyjabakka? Eða úr Sigöldulóni í Þjórsárver? Nei, þessi gæði eins og önnur hafa sín takmörk. Ágirnd mannsins þekkir hins vegar fá endimörk. Við þurfum að takmarka ásóknina.
Stjórnkerfi fiskveiða
Fyrir okkur sem tókum þátt í mótun nýs fiskveiðistjórnunarkerfis (1984-1993) gerðum það með napran úrsvala vísindamanna á Hafró í bakið, sem sögðu, að ef fram gengi sem horfði, myndi ekki verða um mikinn afla að rífast framvegis. Fiskistofnar hrundir og sjávarútvegurinn faktískt gjaldþrota, skuldsettur yfir haus og lifði á lánum og gengisfellingum. Framtíð aðal atvinnuvegar þjóðarinnar og þar með velferð hluta hennar var í veði. Umturna þurfti fortíðinni. Nýtt stjórnkerfi fiskveiða fór vissulega skelfilega með mörg sjávarpláss ; of margar harmsögur; mörg rangindin gerð í skjóli þess; ýmislegt farið öðruvísi en ætlað var; samþjöppun aflaheimilda og afleidd auðsöfnun stjórnlaus: o.s.frv., o.s.frv.: en - sjávarútveginum var bjargað. Hann varð arðbærasti atvinnuvegur landsins.
Látum ekki reka á reiðanum
Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Enn er verið að skipuleggja hérlendis aukinn hagvöxt með langtíma áhrifum til framtíðar- auðlinda tengdan vöxt. Það er eins og allt sé í stakasta lagi nægar auðlindir og sjálfsagt sé að virkja og setja á fót mengandi stóriðju eða grafa í tilgangsleysi eftir draugapeningum. Við erum að þenja hagkerfið langt út fyrir eigin getu. Okkur vantar tugi þúsunda verkafólks næstu árin til að geta rekið öll atvinnufyrirtæki sem þegar er búið að reisa. Og loftlagsváin framundan!
Við verðum að loka þeim kafla íslenskrar atvinnusögu sem hefur hámarks hagvöxt að leiðarljósi. Þetta er ekki gleðiboðskapur. Við verðum að stýra og stjórna, ekki láta óskhyggju og metnað athafnamanna og sveitarstjórnenda ráða ferð. Til að ná böndum á loftslagsbreytingarnar mun þurfa að taka alvarlega til í landbúnaði og framleiðslu hans ekki bara hér heima heldur á heimsvísu; Kolefnisspor hans er mikið. Við þurfum að umturna matar- og neysluvenjum okkar; taka öðruvísi farartæki í notkun; draga úr og endurskipuleggja umferðina og stilla ferðalögum í hóf; jafnvel híbýli okkar þurfa að breytast. Við þurfum að snúa baki við sóun og ofgnótt; verða hófsöm og nægjusöm við lágstemmdari aðstæður en við njótum nú. Jafnframt þurfum við að grípa strax til þeirra ráðstafana sem stöðva, binda eða draga úr losun koltvísýrings. Endurheimt votlendis, landgræðsla og skógrækt. Þetta eru allt miklar áskoranir. Takist okkur að bægja því versta frá verður okkar vonandi minnst af komandi kynslóðum með skilningi. Ef ekki verður okkur formælt og bölvað í sand og ösku.
Höfundur er hagfræðingur.