Staða plöntukynbóta á Íslandi er grafalvarleg. Nú eru nærri engar kynbætur plantna stundaðar á Íslandi og sú starfsemi munaðarlaus. Plöntukynbætur eru lykilþáttur fyrir öflugan landbúnað og fæðuöryggi þjóðarinnar.
Plöntukynbætur byggja á að víxla plöntum og meta afkvæmi til samanburðar við foreldra. Markmiðið er að finna erfðafræðilega bestu einstaklingana fyrir ræktunarumhverfið og velja þá til framræktunar. Þessi starfsemi er tímafrek og kostnaðarsöm, en getur skilað afar miklum hagrænum ávinningi til samfélagsins. Í hverri kynslóð úrvals verða erfðaframfarir í eiginleikanum sem valið er fyrir, t.d. tonn á hektara, gæði eða öryggi uppskerunnar. Erfðaframfarirnar eru samleggjandi, þannig að erfðaframför hvers árs bætir við þær fyrri. Kynbótastarfi þarf því að sinna stöðugt, og ekkert getur bætt fyrir glataðan tíma.
Afrakstur plöntukynbóta getur verið tvíþættur. Annars vegar eru tegundir kynbættar til að innleiða ræktun þeirra á nýjum svæðum, til dæmis kynbætur á hveiti fyrir íslenskar aðstæður. Hins vegar auka kynbætur framleiðni tegunda sem þegar eru í ræktun á ákveðnu svæði, t.d. bygg eða ýmis túngrös í íslensku samhengi.
Allur landbúnaður innifelur kynbætur, enda hafa þær skilað mannkyninu ótrúlegum árangri. Á komandi áratugum verða kynbætur ennþá mikilvægari, þegar framleiða þarf næringarríkan mat fyrir vaxandi fjölda fólks, í umhverfi sem mun markast af loftslagsbreytingum. Ísland ætti að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þessari áskorun með því að reka öflugan landbúnað, og ekki síst með því að efla kornrækt. Það krefst þess að hið opinbera leggi til fjármagn í rannsóknir og þróun.
Eins og staðan er þá flytja Íslendingar inn nær alla kornvöru til manneldis, og stærstan part af fóðurkorni. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að flytja inn ódýrari vöru, sem örðugt er að framleiða hér á landi, en á meðan kynbótum er ekki sinnt geta íslenskir bændur ekki mætt eftirspurn eftir innlendu korni, nema að mjög takmörkuðu leyti. Hvort sem að markaðslegar forsendur eru fyrir hendi fyrir stórfelldri kornrækt hér á landi eða ekki, þá er það glapræði að greiða ekki fyrir jöfnum tækifærum og bættri samkeppnisstöðu íslenskra bænda.
Loftslagsbreytingar munu þrengja að möguleikum til matvælaframleiðslu víða um heim á næstu áratugum. Það ætti að vera keppikefli stjórnvalda að tryggja sjálfbæra matvælaframleiðslu til framtíðar. Íslensk stjórnvöld ættu því að setja stefnu sem miðar að útvíkkun ræktunarmöguleika. Landbætur eru ein mikilvæg aðferð til þess, en jafnhliða þeim ættu stjórnvöld að setja stefnu um kynbótastarf. Í opinberri kynbótastefnu ætti að tryggja kynbótastarfsemi fyrir mikilvægustu tegundir. Fyrir sumar tegundir geta Íslendingar sætt sig við erlent kynbótastarf, en til þess að skapa heilbrigðan samkeppnisgrundvöll í landbúnaði þarf innlent kynbótastarf.
Íslenskir kornbændur eru of fáir til að standa undir fjárfestingunni við kynbótastarf. Auk þess er sérþekkingu og aðstöðu til starfseminnar hérlendis einkum að finna hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Bændur hafa því ekki bolmagn til þess að kosta og reka þetta kynbótastarf sjálfir enn sem komið er. Þennan markaðsbrest þarf að leysa með því að hið opinbera leggi fjármagn til þess aðila sem hefur þekkingu og aðstöðu til starfseminnar. Kynbótastarf ætti að vera til staðar í það minnsta í helstu korn- og grastegundum, ásamt olíujurtum, og nytjatrjátegundum.
Ef hið opinbera leggur fé til kynbóta á korni, ekki eingöngu byggi heldur líka höfrum og hveiti, getur ræktun á korni til manneldis á Íslandi orðið raunhæf innan fárra áratuga. Það yrði bylting fyrir íslenskan landbúnað, hinar dreifðu byggðir og fæðuöryggi þjóðarinnar. Neytendur munu vafalaust fagna framboði af innlendri kornvöru, sem og kjöti og mjólkurvörum sem væri framleitt að mestu eða öllu leyti með alíslenskum hráefnum.
Ráðamenn ættu að veita því athygli að þrátt fyrir mikilvægi þessarar starfsemi er henni ekki tryggt fjármagn. Það er erfitt eða jafnvel ómögulegt að tryggja verklegum hluta plöntukynbóta fjármagn í gegnum samkeppnissjóði. Slíkir sjóðir horfa mikið til nýbreytni verkefna, en nýbreytnin í einföldum víxlunum og vali er í raun engin. Kynbætur nýrra tegunda eru nýnæmi sem gæti hugnast samkeppnissjóðum, sem hugsanlega má nýta til þess að hefja kynbætur nýrra tegunda, en afraksturinn verður lítill því kynbótavinnan þarf að fara fram á hverju ári í áratugi til að skila árangri. Ástandið er með öllu óásættanlegt þar sem að kynbótastarf er undirstaða þess að þróa íslenska kornrækt og tryggja vöxt öflugs landbúnaðar á Íslandi á komandi áratugum.
EG er doktorsnemi í kynbótafræðum og HSH starfar sem tilraunastjóri í jarðrækt við Landbúnaðarháskóla Íslands.