Ný kosningalög tóku gildi nú um áramótin. Lögin eru til framfara og munu vonandi verða til þess að auka traust á framkvæmd og gildi kosninga og þar með á lýðræðinu. Ekki veitir af nú þegar lýðræðið er á undanhaldi víða um lönd – svo að ekki sé minnst á klúðrið hjá okkur í Norðvesturkjördæmi.
Einn meginkostur nýju laganna er sá að öll ákvæði um kosningar – til Alþingis, til sveitarstjórna og kjör forseta Íslands – ásamt ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur eru færð í einn lagabálk. Það hefur m.a. það í för með sér að áhrif kjósenda í sveitarstjórnarkosningum til að breyta röð frambjóðanda með útstrikunum eða umröðun aukast verulega. Á þetta kann að reyna í kosningum til sveitarstjórna sem fram fara í maí. Nýmælið kemur ekki beinlínis fram í lögunum og hefur því væntanlega farið fram hjá mörgum.
Forsaga málsins er í stórum dráttum þessi:
- Allt frá byrjun tuttugustu aldar, þegar listakosningar voru fyrst teknar upp, fór uppgjör breyttra seðla fram með svokallaðri Borda-reglu og gilti það bæði í sveitarstjórnar- og alþingiskosningum (þar sem það átti við).
- Ákvæðunum var breytt í þingskosningalögum 1959 í þá átt að draga stórlega úr áhrifum kjósenda. Sagt er að þetta hafi þingið gert til að koma í vega fyrir að atvik frá þingkosningum 1946 endurtaki sig. Þá leiddu útstrikanir til þess að Bjarni Benediktsson (eldri) komst á þing í stað Björns Ólafssonar en hann var næstur fyrir ofan Bjarna á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
- Alþingi breytti þessu til enn verri vegar 1987 enda þótt það hafi verið yfirlýst markmið að auka skyldi vægi kjósenda. Í stað Bordareglunnar var tekin upp prófkjörsreglan svokallaða sem er góð og gild til síns brúks en er ótæk í kosningum þegar eru boðnir fram raðaðir listar. Ákvæðunum var breytt í þessa veru bæði í lögum um þingkosningar svo og í þeim um sveitarstjórnarkosningar. Ég var á þessum árum ráðgjafi stjórnvalda í málaflokknum og benti á að breytingin væri öndverð við ætlað markmið.
- Lögum um kosningar til Alþingis var aftur breytt árið 2000 og þá horfið til baka með því að tekið var upp afbrigði við Bordaregluna sem hafði þau áhrif að vægi breyttra seðla var – og er enn – meira en það hefur verið síðan í vorkosningunum 1959. Kjósendur hafa í þrígang á þessari öld náð að víxla röð kjörinna þingmanna. Þó ekki svo að það hafi breytt skipan Alþingis.
- Af einhverjum ástæðum „gleymdist“ að breyta lögum um kosningar til sveitarstjórna til samræmis þarna um aldamótin síðustu. Allt þar til nú hafa því ákvæðin frá 1987 verið í gildi við sveitarstjórnarkosningar og breytingar á kjörseðlum verið gagnslausar. Því hefur persónuvalið verið rýrara í staðbundnum kosningum en í landskosningum hér á landi. Þetta er öfugt við það sem tíðkast víðast hvar í löndunum í kringum okkur.
Þetta breytist nú: Þar sem kosningalögin eru orðinn einn bálkur gildir fyrrnefnt afbrigði af Bordareglunni í komandi sveitarstjórnarkosningum, eins og í þingkosningum.
En hverjar eru þá þessar nýju reglur um vísi að persónukjöri í sveitarstjórnarkosningum? Því verður ekki lýst í stuttri fjölmiðlagrein en benda má á vefsíðu undirritaðs: http://thorkellhelgason.is/?p=2710. Þar er að finna ítarlega lýsingu á reglunni á bls. 34-36 í greinargerð um kosningarnar 2003.
Í þessari greinargerð er bent á að áhrifamesta leið kjósanda til að þoka frambjóðanda B upp fyrir þann næsta fyrir ofan, frambjóðanda A, er þessi:
Merkja B með einum, „1 B“, þ.e. setja hann í fyrsta sæti, en um leið að strika A út, „A“.
Það fer síðan eftir því hversu mörg sæti listinn fær hve marga kjósendur þarf til að ná að víxla röð þessara tveggja:
- Sé þetta listi sem fær aðeins eitt sæti og vilji kjósendur listans koma B, sem skipar varamannssæti listans, upp fyrir þann efsta, A, þarf fjórðungur (25%) þeirra að beita þessum brögðum; og meira ef aðrir kjósendur koma með mótleik!
- Fái listinn tvo menn kjörna og vilji aðgerðarhópurinn lyfta B upp fyrir A þarf hópurinn að vera skipaður fimmtungi (20%) kjósenda.
- Hafi listinn fengið þrjá menn kjörna þarf 14,3% til, en 11,1% hafi listinn hlotið fjögur sæti o.s.frv.
Að lokum: Ný kosningalög þarf enn að bæta.
Höfundur er fyrrverandi prófessor.