Kæru félagar, til hamingju með daginn!
Þann 1. maí ár hvert höldum við upp á alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins. Annað árið í röð koma nauðsynlegar sóttvarnarráðstafanir í veg fyrir að við getum farið í kröfugöngur og komið saman á baráttufundum. Við getum ekki annað en vonað að bjartari tíð taki við í sumar þegar sífellt fleiri fá bólusetningu.
Að þessu sinni fögnum við líka stórum áfanga í baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar þann 1. maí. Þann dag tekur styttingin gildi hjá öllum vinnustöðum ríkis, sveitarfélaga og stofnunum sem kostaðar eru að meirihluta af almannafé þar sem unnið er í vaktavinnu, en stytting í dagvinnu tók gildi síðustu áramót.
Síðustu mánuði hefur verið unnið hörðum höndum að því að undirbúa þessa mestu breytingu á vinnutíma vaktavinnufólks í hálfa öld. Stórum breytingum fylgja stórar áskoranir enda ekki við öðru að búast þegar vinnutíminn er styttur hjá svo stórum hópi sem vinnur að jafn mikilvægum en jafnframt ólíkum verkefnum og okkar fólk í almannaþjónustunni. Verkefninu er ekki lokið enda vegferðin í átt að betri vinnutíma í vaktavinnu rétt að hefjast. Við munum áfram vinna að því að tryggja að allir vinnustaðir prófi sig áfram að framtíðarfyrirkomulagi með virku og góðu samtali starfsfólks og stjórnenda.
Heilt yfir hefur undirbúningur gengið vel og er markmiðið að þessi stóri hópur sem nú styttir vinnuvikuna sína um fjórar til átta klukkustundir á viku njóti aukinna lífsgæða til að vega á móti neikvæðum áhrifum vaktavinnu á heilsu, öryggi og samþættingu vinnu og einkalífs. Þannig hefur verið viðurkennd sú krafa BSRB til margra ára að 100 prósent vaktavinna jafngildi 80 prósent viðveru fyrir erfiðustu vaktirnar. Næstum allt starfsfólk í hlutastarfi, sem eru einkum konur í heilbrigðis- og félagsþjónustu, hafa nýtt tækifærið og hækkað starfshlutfall sitt og aukið þannig ævitekjur sínar. Þar með er tekið mikilvægt skref í átt að auknu jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Starfsfólk fái álagsgreiðslur eða launauppbót
Stytting vinnuvikunnar hefur síður en svo verið eina stóra verkefnið sem við höfum staðið frammi fyrir á árinu. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag og við hjá BSRB höfum beitt okkur af fullum þunga til að tryggja hagsmuni okkar félagsmanna og landsmanna almennt.
Álagið á framlínufólkið okkar hefur auðvitað verið gríðarlegt og við erum alls ekki búin að bíta úr nálinni með það. Við eigum án efa eftir að sjá afleiðingarnar á næstu árum og jafnvel áratugum en BSRB hefur beitt sér fyrir því að ekki verði gripið til niðurskurðaraðgerða hjá hinu opinbera með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á starfsfólk, fyrir efnahagsbatann og samfélagið allt. Markmiðið verður að vera að vaxa út úr vandanum og öðru fremur að jafna byrðarnar með aukinni skattheimtu á breiðu bökin.
Íslenskt samfélag hefur einnig staðið frammi fyrir meira atvinnuleysi en við höfum upplifað í síðari tíð. Í kreppunni sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér hefur BSRB lagt áherslu á að afkoma fólks sem misst hefur vinnuna verði varin með hækkun atvinnuleysisbóta og lengra bótatímabili. En það er ekki nóg til að koma okkar samfélagi út úr þessari kreppu. Til þess þurfum við að skapa störf sem standa undir góðum lífskjörum og auka jöfnuð.
En okkar fólk í framlínunni getur heldur ekki staðið vaktina endalaust. Við höfum lagt allt okkar traust á þau í heimsfaraldrinum og álagið hefur verið gríðarlegt á grunnstoðum opinbera kerfisins. Núna er því tækifærið til að skapa góð störf, bæði tímabundin og varanleg, í heilbrigðiskerfinu, í sjúkraflutningum, í skólakerfinu, í félags- og velferðarþjónustu, í löggæslunni og víðar. Það verður að létta á álaginu af starfsfólkinu sem hefur staðið í stafni til að forða því frá langtímaafleiðingum streitu. Besta leiðin til að gera það er að tryggja nægilega mönnun til að koma í veg fyrir enn frekar fjölgi í hópi þeirra sem glíma við kulnun í starfi.
Allt það góða starfsfólk sem starfar í þessum hluta almannaþjónustunnar hefur leikið lykilhlutverk í að tryggja lífsgæði landsmanna og að hagkerfið okkar haldi áfram að ganga. Við vitum það eflaust öll að hefði starfsfólk í einhverjum öðrum greinum lent í álíka álagi við að bjarga lífum og verðmætum hefði það fengið álagsgreiðslur eða launauppbót í samræmi við það þrekvirki sem það hefur unnið. Starfsfólk heilbrigðisstofnana fékk heldur dapurlegt framlínuálag í kjölfar fyrstu bylgju faraldursins en aðrir hópar hafa ekkert fengið. Það er löngu kominn tími fyrir stjórnvöld að sýna þakklætið í verki og veita þessum hópum sem hafa fleytt okkur í gegnum faraldurinn launauppbót í samræmi við álag.
Rammskakkt verðmætamat
Á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins beinum við sjónum okkar að þeim sigrum sem verkalýðshreyfingin hefur náð fram á undanförnum árum og áratugum, en við brýnum hvert annað einnig til góðra verka í framtíðinni. Eitt af stærstu baráttumálum sem framundan eru hjá BSRB er að leiðrétt verði kerfisbundið vanmat á störfum kvenna.
Rétt eins og heimsfaraldurinn hefur varpað ljósi á mikilvægi almannaþjónustunnar hefur ástandið sýnt okkur í eitt skipti fyrir öll þau verðmæti sem starfsfólk hennar skapar samfélaginu, í heilbrigðis- og félagsþjónustu, skólum, við ræstingar og víðar.
Starfsfólkið í þessum starfsgreinum á tvennt sameiginlegt. Í fyrsta lagi er meirihluti þeirra sem sinnir þessum mikilvægu verkefnum konur. Í öðru lagi eru heildarlaun þessara starfsstétta almennt lægri en laun sambærilegra stétta þar sem karlar eru í meirihluta.
Þessi staða varð ekki til af sjálfu sér. Það er ákvörðun stjórnvalda, atvinnurekenda og samfélagsins í heild sinni að laun þessara stétta séu lægri. Að taka ekki tillit til raunverulegs verðmætis þessara starfa og þess tilfinningalega álags sem starfsfólkið verður fyrir.
Af hverju borgum við fólki sem passar upp á peningana okkar hærri laun en fólkinu sem menntar börnin okkar eða hugsar um foreldra okkar þegar þau komast á efri ár? Af hverju tökum við ekki tillit til þess tilfinningalega álags sem fylgir því að vera í nánum persónulegum samskiptum við fólk sem er sumt hvert í mjög viðkvæmum aðstæðum eða ástandi?
Skakkt verðmætamat á störfum kvenna er óréttlæti sem á ekki að líðast og mun ekki líðast lengur. Við höfum á undanförnum árum náð árangri í því að tryggja konum jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf hjá sama atvinnurekanda, en það er ekki nóg. Við verðum að endurmeta markvisst verðmæti starfa stórra kvennastétta. Slík leiðrétting mun vega þyngst þegar kemur að því að eyða kynbundnum launamun.
Þetta er ekki eitthvað sem breytist af sjálfu sér. Við þurfum að breyta þessu. Við ætlum að breyta þessu. Heimsfaraldurinn varpaði ljósi á mikilvægi þessara stétta og við hjá BSRB ætlum að taka höndum saman með öðrum samtökum launafólks og krefjast þess að við nýtum þetta tækifæri til að leiðrétta þetta rammskakka verðmætamat.
Berjumst fyrir sanngjörnu og öruggu samfélagi
Á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins lítum við til sögunnar. Við minnumst samstöðu launafólks í gegnum tíðina og hvernig sú samstaða hefur skilað okkur öllum mikilvægustu sigrunum í verkalýðsbaráttunni í gegnum tíðina. Nú þegar við sjáum fyrir endann á heimsfaraldrinum þurfum við enn og aftur á samstöðunni að halda. Stöndum saman í baráttunni og höldum áfram að berjast fyrir sanngjörnu og öruggu samfélagi fyrir alla.
Höfundur er formaður BSRB.