Helgi Sigurðsson hrl., fyrrverandi aðallögfræðingur Kaupþings, og Ragnar H. Hall hrl., lögmaður á lögmannsstofunni Mörkinni, sendu Ragnhildi Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er einnig ráðherra dómsmála, bréf þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum af því að við rannsóknir á umboðssvikum í efnahagsbrotamálum hafi verið vikið frá hefðbundnum sjónarmiðum við skýrleika refsiheimilda. Ráðuneytisstjóri, fyrir hönd ráðherra, hefur óskað eftir því við réttarfarsnefnd að athugasemdirnar verið teknar til skoðunar, samkvæmt Fréttablaðinu.
Ekki verður séð annað en að með þessu séu lögmenn manna sem grunaðir eru um stórfellda efnahagsbrotaglæpi að skapa pólitískan þrýsting um úrbætur á einhverju sem þeir telja ekki vera í réttum farvegi. Það er kannski bara eðlilegasti hlutur, að gera slíkt. En samt vekur þetta upp spurningar. Helgi og Ragnar hafa staðið í ströngu þegar kemur að málum sem tengd eru hruninu, Ragnar var sektaður um eina milljón fyrir að lítilsvirða dóminn í Al-Thani málinu og Helgi var með puttann í mörgum málum sem sérstakur saksóknari hefur verið að rannsaka, sem aðallögfræðingur Kaupþings. Auk þess sem hann kom að því að formgera þá ótrúlegu athöfn þegar bankamenn í Kaupþingi felldu niður persónulega ábyrgð sína á eigin lánum upp á tugi milljarða, rétt áður en bankinn hrundi eins og spilaborg. Hæstiréttur hefur með dómi rift þessari athöfn á grundvelli þess að hún hafi ekki staðist lög.
Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr þessu öllu saman.