Í um tvo tíma síðastliðinn föstudag var það stærsta frétt dagsins að Björn Ingi Hrafnsson hefði keypt 70 prósent hlut í DV, en Björn Ingi hefur átt, stýrt og rekið Vefpressuna undanfarin ár. Afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hirti síðan alla athygli af kaupunum.
Kaupin voru reyndar eitt verst geymda leyndarmál íslensks fjölmiðlaheims og í töluverðan tíma hefur ekki verið spurning um hvort heldur hvenær tilkynnt yrði um þau.
Fyrrum meirihlutaeigendur DV greindu frá því á starfsmannafundi fyrir skemmstu að þeir hefðu sett um 85 milljónir króna í reksturinn svo það hefur ekki verið alveg ókeypis fyrir Björn Inga að kaupa hlutinn. Hann vildi ekki greina frá því hvert kaupverðið væri né hvernig kaupin voru fjármögnuð þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um það. Björn Ingi sagði þetta þó „vera samvinnuverkefni með þeim sem áttu blaðið“, sem rímar ágætlega við háværustu kenninguna á meðal starfsmanna DV, sem telja að Birni Inga hafi verið veitt seljendalán frá fyrri meirihlutaeigendum.
Björn Ingi Hrafnsson verður meirihlutaeigandi í DV ef Samkeppniseftirlitið leggur blessun sína yfir ráðahaginn.
Kaupin ganga þó ekki í gegn fyrr en Samkeppniseftirlitið samþykkir þau. Í bakherbergjunum velta menn því fyrir sér hvort það gæti orðið snúið. Samkeppniseftirlitið hefur nefnilega verið að fylgjast með fjölmiðlamarkaðnum af aðeins meiri áhuga undanfarin misseri en áður hefur verið.
Eitt þeirra atriða sem gæti gert þau snúin eru samstarfssamningur sem vefsíðan Eyjan, flaggskip Vefpressunnar, gerði við 365 miðla, langstærsta einkafjölmiðlafyrirtæki landsins, í febrúar síðastliðnum. Samkvæmt samningnum átti Eyjan að sjá um vikulegan sjónvarpsþátt undir Eyju-heitinu sem Björn Ingi átti að stýra. Auk þess var samhliða tilkynnt um útgáfu mánaðalegs blaðs Eyjunnar sem átti að fylgja frítt með Fréttablaðinu. Blaðið hefur reyndar aldrei komið út en sjónvarpsþátturinn hefur verið í loftinu í nokkur tíma.
Samningurinn er talinn mjög verðmætur fyrir Vefpressuna og skiptir því ugglaust töluverðu máli í rekstri hennar. Því verður áhugavert hvort Samkeppniseftirlitið taki þennan samning inn í skoðun sína á kaupum Vefpressunnar á DV.