Hræringarnar á DV hafa vart farið framhjá neinum. Þær hafa líka gert það að verkum að allur fókus hefur færst af því umróti sem átt hefur sér stað á 365 miðlum, sem hefur þó ekki síður verið dramatískt. Kristín Þorsteinsdóttir, starfandi aðalritstjóri 365, hefur leitað logandi ljósi að nýju starfsfólki til að framfylgja áherslum sínum og eigenda fyrirtækisins.
Í þeirri viðleitni hefur hún leitað til nokkuð margra fyrrum starfsmanna og millistjórnenda hjá 365, sem annað hvort hættu eða voru reknir í kjölfar ráðningar Mikaels Torfasonar sem aðalritstjóra snemma árs 2013. Engin þeirra hefur enn haft áhuga á því að snúa aftur.
Kristín hefur að undanförnu því nýtt ástandið á DV sér í hag og nælt sér í nokkra lykilmenn þaðan. Sérstaklega hefur vakið athygli að hún hefur fylgt þeirri yfirlýstu áherslu að fjölga konum í stafni skipsins og náð í flestar þær sterkustu frá DV. Með því slær Kristín tvær flugur í einu höggi. Hún mannar bæði nýja áhöfn og veikir verulega stóran samkeppnisaðila sem er þegar á gjörgæslu eftir flótta starfsmanna og áskrifenda.