Í vikunni var það boðað að fjárfestingaleiðin svokallaða, þar sem útvaldir hafa getað keypt sér betri lífskjör á Íslandi með því að fá krónur á betra gengi en opinbert gengi Seðlabanka Íslands segir til um, sé brátt að líða undir lok. Fólk í bakherberginu ætlar að skála í kampavíni þegar fjárfestingaleiðin verður aflögð, enda hefur hún verið tær birtingarmynd þeirrar mismununar sem fjármagnshöft hafa í för með sér. Árangurinn af leiðinni er mögulega einhver, þegar kemur að því að er kvik krónueign hefur minnkað, en þó er ekkert vitað um það í sjálfu sér, enda fjármagnshöftin ein stór bjögun á hagkerfinu; hindrun fyrir eðlilegan fjármagnsframgang og markaðsþróun. Innan þeirra er fölsk veröld sem vonandi verður hægt að koma landinu út úr sem fyrst.
Síðasta útboðið verður 10. febrúar og er lokafrestur til að skila inn umsóknum 21. janúar. Það er ekki ólíklegt að í framtíðinni verði öllum steinum velt við, og gerðar rannsóknir á því hvernig veröldin var innan fjármagnshaftanna og hvaða fólk það var sem tók þátt í þessum útboðum og nældi sér í betri lífskjör hér á landi með hagstæðara gengi en almenningi bauðst. Það er kannski bara sniðugt að birta öll gögn um þetta þegar fjárfestingaleiðin hættir. Er það ekki bara eðlilegt, í ljósi þess að það er seðlabanki skattgreiðenda sem hefur haft umsjón með þessu ferli, undir blessun Alþingis sem kom almenningi í haftabúskapinn með lögum? Það finnst fólkinu í bakherberginu hið minnsta.