Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari vakti athygli í vikunni þegar hann lýsti skoðun sinni á því hvernig Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur beitt sér í lekamálinu.
Hann mætti svo í Vikulokin á Rás 1 í dag og sagðist ekki muna eftir viðlíka gagnrýni frá jafn valdamiklum aðila og Hönnu Birnu. Orðrétt sagði Helgi: „Maður þekkir þessa varnartaktík hjá sakborningum og verjendum í efnahagsbrotamálum. Það eru einstaklingar sem eru að verja sig úti í bæ og menn geta kannski auðveldar varist því. Það skilja það allir að þar er um sakborninga að ræða en að kynnast þessu frá, úr þessari átt, var að mestu leyti nýtt fyrir mér[...]Við skulum skoða stöðu lögreglustjóra [Stefáns Eiríkssonar] undir þessum kringumstæðum. Þetta er náttúrulega ákaflega erfið staða fyrir mann að lenda í, undir þessum kringumstæðum. Að yfirmaður hans, sem hefur öll hans ráð í hendi sér, skuli tala svona. Ef við göngum út frá því að það sé, eins og ég býst við að það sé, að þetta sé rétt frá greint, að þá er þetta náttúrulega ákaflega óheppilegt, ef við getum verið svolítið hófleg í yfirlýsingum“.
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir afskipti sín að rannsókn lekamálsins.
Í bakherbergjunum hefur það verið rifjað upp að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helgi Magnús lýsir skoðunum sínum opinberlega þannig að tekið sé eftir. Árið 2007 var Helgi Magnús saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, deildar sem síðar rann inn í embætti sérstaks saksóknara.
Þegar hvítflibbar eiga í hlut og það fréttist að þeir hafi jafnvel stungið ævitekjum verkamannsins undan skatti skapast oft engin umræða um málið.
Þann 20. júní það ár, rúmu ári áður en íslensku bankarnir hrundu, birtist viðtal við Helga Magnús í Blaðinu sáluga. Þar sagði hann m.a.: „Það er enginn sem gerir athugasemd við þaðað refsa manni sem stelur sér kókflösku á Laugaveginum[...]Þegar hvítflibbar eiga í hlut og það fréttist að þeir hafi jafnvel stungið ævitekjum verkamannsins undan skatti skapast oft engin umræða um málið. Það er þetta sem ég vil að fólk vakni til vitundar um. Þessir hagsmunir almennings sem við erum að berjast fyrir eru svo gríðarlega miklir. Þessir menn sem við fáumst við eru í þeirri aðstöðu að geta svipt okkur starfinu, eignunum og eftirlaununum.“
Í viðtalinu fór hann líka fram á að þeir sem gerðust sekir um stórfelld efnahagsbrot yrði refsað með opinberari hætti. „Annars er hættan sú að refsingar verði hugsaðar sem herkostnaður. Ef það kemst upp um menn í eitt skipti af tíu þá er hættan sú að þeir borgi einfaldlega sekt og þakki fyrir að enginn viti af brotinu. Þá er þetta orðið eins og að menn sé að kaupa sig út úr ábyrgð með greiðslu sektanna“.
Af orðum Helga Magnúsar má ráða að vandamál okkar Íslendinga sé það að auðvaldið og pólitíkin telji sig ofar réttvísinni. Og hiki ekki að beita sér þegar ákæruvaldið, eða einhverjar aðrar stofnanir samfélagsins, ætli sér að toga þá niður á sama plan og allir hinir búa við.