Reglulega skýtur upp kollinum umræða um neysluskatta, ekki síst skatta og gjöld sem ætluð til þess að bæta lýðheilsu fjöldans. Hinn svonefndi sykurskattur hefur oftar en ekki verið miðpunkturinn í þessum deilum hér á landi. Fólk lítur ýmist á skatt á sykur sem óþarfan skatt, þar sem fólk eigi að ráða því sjálft hvað það borðar, án þess að reynt sé að stýra því sérstaklega með sköttum hvað það er að borða. Annað sjónarmið er að síðan að nota einmitt skatta og gjöld til þess að bæta haga heildarinnar, vinna gegn óhóflegu sykuráti, sem hvort eða er sé borgað af öllum í gegnum samrekstur heilbrigðiskerfisins.
Eldmessa fjölmiðlamannsins frábæra, John Oliver, um þessi mál hefur vakið mikla athygli. Hann bendir á að rannsóknir séu að sýna betur og betur, að sykur sé hættulegur og verulega óhollur, og hafi svipuð áhrif á heilann og fíkniefnið kókaín. Sérstaklega í því magni sem almenn neysla í Bandaríkjunum er núna, sem nemur 22 teskeiðum af sykri, hjá hverjum einstaklingi, á hverjum degi.
Í ljósi þess að óhófleg sykurneysla er fyrir löngu orðið alþekkt og viðurkennt alþjóðlegt vandamál, þá spyrja margir í bakherbergjunum, hvort ekki sé í því heilbrigði skynsemi að vinna gegn þessu kostnaðarsama böli með sköttum og gjöldum? Eitt er víst að hagsmunaaðilar, gosdrykkja- og sælgætisframleiðendur meðal annarra, munu vafalítið berjast gegn því, eins og þeir hafa alltaf gert. En hvað með það? Skiptir afstaða þeirra einhverju máli? Geta þeir eitthvað frekar en aðrir túlkað staðreyndir og rannsóknir? Réttast væri að kalla þetta réttum nöfnum og með réttri nálgun; Baráttan gegn sykrinum. Ef það þarf neysluskatta, til viðbótar við stanslausan boðskap um heilsusamlegan lífstíl, þá verður svo að vera.
Íslendingar éta víst að meðaltali 50 kíló af sykri á ári, hver maður. Það er margfalt of mikið og óhóflegt.
Sjá má innslag John Oliver hér meðfylgjandi.
https://www.youtube.com/watch?v=MepXBJjsNxs