Fyrr í dag var tilkynnt um að Haraldur Johannessen hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Ráðningin kemur í kjölfar þess að Óskar Magnússon, sem starfað hefur sem útgefandi Morgunblaðsins, óskaði eftir að hætta störfum og gaf þá opinberu skýringu að hann vildi sinna ritstörfum betur. Mikil eftirsjá er sögð af Óskari, sérstaklega þar sem hann hefur oft staðið með faglegri hluta ritstjórnar Morgunblaðsins í rimmum hennar við ritstjóranna tvo, Davíð Oddsson og Harald Johannessen.
Við brotthvarf Óskars var ráðist í skipulagsbreytingar og starf útgefanda lagt niður. Haraldur, sem hefur verið ritstóri Morgunblaðsins við hlið Davíðs undanfarin fimm ár, mun sinna ritstjórnarstarfinu áfram samhliða því að vera framkvæmdastjóri.
Í bakherbergjunum hefur lengi verið pískrað um að Davíð myndi hætta sem ritstjóri um þessi áramót, enda verður hann 67 ára í janúar 2015 og hefur verið allt um lykjandi í íslensku samfélagi frá árinu 1982. Það ár settist hann í stól borgarstjóra Reykjavíkur, varð síðar þaulsetnasti forsætisráðherra þjóðarinnar, prófaði utanríkismálin stundarkorn og gerðist loks aðal-seðlabankastjóri allt þar til að honum var nánast gert að hætta í því starfi árið 2009. Þá um haustið var hann síðan ráðinn sem ritstjóri Morgunblaðsins.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands frá árinu 1991 til ársins 2004. Hann er þaulsetnasti forsætisráðherra í sögu þjóðarinnar.
Að mörgu leyti hefur Davíð afrekað að ýta flestum hugðarefnum sínum í framkvæmd úr stóli ritstjóra. Þegar hann tók að sér starfið var við lýði fyrsta tveggja flokka vinstristjórn lýðveldissögunnar, samningaviðræður stóðu yfir um Icesave-samninganna, Ísland var í virku umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu og fyrirhugað var að leggja á útgerðina há veiðileyfagjöld.
Síðan þá hefur vinstri stjórnin hrökklast frá gífurlega löskuð og ný stjórn sem virðist Davíð mjög að skapi tekið við taumunum. Icesave hefur unnist fyrir alþjóðlegum dómstólum án samninga. Evrópusambandsumsókninhefur verið stöðvuð og verður líklega dregin til baka á allra næstu misserum. Og síðast en ekki síst er búið að losa stórútgerðina, sem á Morgunblaðið, undan mestu veiðileyfagjöldunum. Allan þennan tíma hefur Davíð hamast á þessum málum af mikilli áfergju í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins.
Í tilkynningu frá stjórn Árvakurs vegna ráðningu Haraldar sem framkvæmdastjóra/ritstjóra kemur hins vegar fram að Davíð verði áfram ritstjóri. Gestir í bakherberginu sem þekkja til í enn myrkraðri bakherbergjum hafa staðfest þetta í dag.
Kannski hefur sá árangur sem Davíð og félagar hafa náð við að móta samfélagið eftir sínu höfði undanfarin ár hvatt hann til dáða.
Davíð er alls ekki hættur.