Dvínandi lestur íslenskra prentmiðla, og sérstaklega fríblaða, hefur vart farið framhjá neinum. Hlutfall þeirra sem lesa fríblaðarisann Fréttablaðið, sem er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar, er 21 prósent lægra en það var fyrir átta árum. Hitt stóra fríblaðið, Fréttatíminn, hefur einnig upplifað mikið lestrarfall. Alls hefur lestur á því dregist saman um rúm ellefu prósent frá fyrstu mælingu vorið 2011.
Þrátt fyrir versnandi stöðu fríblaða, og raunar hríðminnkandi lestur á prentmiðlum á heimsvísu, hefur elsta starfandi dagblað landsins, Morgunblaðið, helt sér á fullu í fríblaðaslaginn. Þaulsetnustu Bakherbergismenn og –konur hafa nefnilega veitt því eftirtekt að frá því snemma hausts árið 2013 hefur Morgunblaðinu, nánast undantekningarlaust, verið dreift frítt vikulega, oftast á fimmtudögum. Þá fá allir gleðiboðskap Morgunblaðsins í póstkassann sinn, ekki bara þeir sem eru áskrifendur.
Sverrir Agnarsson, fjölmiðlagreindandi 365 miðla, birti nýlega færslu um þetta á Facebook-svæðinu „Fjölmiðlanördar“. Þar segir hann: „Nú hefur komið inn á markaðinn nýtt blað sem er gamli Mogginn en dreift frítt að hætti Fréttablaðsins og Fréttatímans. Þessar frídreifingar blaðsins hafa aukist verulega það sem af er hausti og það mikið að í raun er um nýjan miðil að ræða. En lestur á frídreifingarblað Morgunblaðsins er ekki kannaður sérstaklega og tilheyrir því ekki ofnanefndum gjaldmiðli markaðarins heldur er gert út á tilfinningar auglýsenda og fullyrðingar Morgunblaðsins að blaðið fari á flest heimili landsins og lestrartölur því svipaðar og tölur Fréttablaðsins.[...]Könnun sem Fréttablaðið gerði undir umsjón undirritaðs sýndi að ávinningur auglýsenda af svokallaðri „Aldreifingu“ Morgunblaðsins er langt undir væntingum markaðarins bæði hvað varðar fjölda heimila sem fengu blaðið og fjölda þeirra sem fengu blaðið en lásu það ekki.“
Það er raunar hægt að sjá það á tölum Capacent um lestur prentmiðla að aldreifingin svokallaða hefur ekki gert mikið fyrir lestur Morgunblaðsins. Líkt og Kjarninn greindi nýverið frá þá hefur meðallestur Morgunblaðsins lækkað um helming frá árinu 2006 og lesendur hans í aldurshópnum 18-49 ára er einungis 20,66 prósent Íslendinga