Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók af allan vafa í viðtali við sjónvarpsþáttinn Eyjuna í gær um að hann ætli að sitja út þetta kjörtímabil.
Í því voru fólgin töluverð tíðindi, enda hefur Ólafur Ragnar ekki viljað svara því hvort hann hafi ætlað sér að sitja út kjörtímabilið eða hætta fyrr, þegar leitað hefur verið svara við þeirri spurningu. Ljóst er að ummæli forsetans um hvað hann ætli að gera hafa verið mjög misvísandi.
Þegar Ólafur Ragnar Grímsson sendi frá sér yfirlýsingu þann 4. mars 2012 þá sagði í henni: „Það er þó einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst, ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr en ella“.
Skömmu síðar sagði Ólafur Ragnar m.a.: „Og eftir þónokkra umhugsun þá varð það niðurstaða mín að verða við þessum óskum, en þó með þeim fyrirvara, eins og ég nefndi í yfirlýsingunni, að þegar vonandi allt verður orðið stöðugra og kyrrð hefur færst yfir, bæði varðandi stjórnskipun og stöðu mála í landinu, þá hafi menn á því skilning að ég muni þá ekki sitja út allt næsta kjörtímabil, og forsetakosningar færu þá fram fyrr en ella.“
Örnólfur Thorsson forsetaritari sagði við fréttastofu RÚV þann 17. júlí síðastliðinn að forsetinn ætlaði sér ekki að veita viðtal um þetta efni, hvort hann hyggist sitja út kjörtímabilið, enda ræði hann „það ekki sem fram hafi komið í kosningabaráttu, eftir að hann hefur tekið við embætti. Umræða í kosningabaráttu verði ekki framlengd inn í embættistíð forsetans“.
Í Bakherbergjunum túlka menn það sem svo að forsetinn telji hvorki hafa skapast stöðugleiki í stjórnskipan landsins og stjórnarfari, né að staða Íslands í samfélagi þjóða hafi skýrst. Því þurfi þjóðin á Ólafi Ragnari að halda í að minnsta kosti tæp tvö ár í viðbót. Í viðtalinu í gær útilokaði forsetinn raunar ekki að bjóða sig fram enn einu sinni. Mögulega veltur sú ákvörðun á því hvort sitjandi stjórnvöld nái að sannfæra forsetann um að þau séu starfi sínu vaxin og þurfi ekki á áframhaldandi viðveru hans að halda.