Verst geymda leyndarmál fjölmiðlaheimsins er yfirvofandi samruni Vefpressunnar, sem rekur m.a. vefmiðilinn Eyjuna, og DV. Í Bakherbergjum landsins er því auðvitað velt fyrir sér hvort, og þá hverjir, standi að baki þessum sameiningum utan þeirra sem stjórna fyrirtækjunum tveimur í dag og hvort mögulega fleiri fyrirtæki verði hluti af samrunanum.
Ljóst er að þessar samrunahugmyndir hafa legið fyrir í töluverðan tíma, eða frá því að Þorsteinn Guðnason og viðskiptafélagar hans tóku yfir DV snemma í haust. Ólafur M. Magnússon, kenndur við KÚ, sagði til að mynda við Kjarnann í síðustu viku að Þorsteinn hefði sagt sér að í bígerð væri stór sameining við Vefpressuna.
Í kjölfar yfirtöku Þorsteins og félaga átti sér stað mikil hreinsun sem í fólst meðal annars að ritstjórinn Reynir Traustason, framkvæmdastjórinn Jón Trausti Reynisson og auglýsingastjórinn Heiða B. Heiðars hættu öll störfum ásamt nokkrum fjölda annarra starfsmanna. Störf þeirra þurfti að fylla tiltölulega fljótt og því hafa þó nokkrir starfsmenn verið ráðnir inn undanfarið. Athygli vekur að þeir hafa meira og minna verið ráðnir inn sem verktakar, Verði af samruna þar sem ekki verður pláss fyrir alla starfsmenn þá geta eigendur DV því sparað sér að greiða uppsagnarfresti þeirra starfsmanna.
Þorsteinn sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku sem gaf þessu samrunapískri enn frekari vængi. Þar sagði hann m.a. að „einkenni íslensks fjölmiðlamarkaðar eru þrír stórir aðilar og fjöldi minni rekstraraðilar. Margir hinna minni hafa um langt skeið átt við erfiðleika og óhagkvæmni að etja sökum smæðar og þurfa meiri umsvif til að ná tryggari afkomu. DV ehf. fellur undir hóp minni aðilanna[...]Ég hef [...] átt formleg og óformleg samtöl við fulltrúa nokkurra fjölmiðlafyrirtækja á Íslandi um samstarf, sölu eða kaup í huga. Ég vona að þau mál skýrist á allra næstu dögum.“ Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi og helsti eigandi Vefpressunnar, staðfesti síðan um helgina að viðræður um samstarf eða samruna við DV sé í farvatninu.