Í byrjun októbermánaðar var greint frá því að íslenskir nemendur hefja nám á háskólastígi seinna en nemendur í flestum öðrum OECD-löndum. Árið 2012 var meðaldur nýnema í fræðilegu námi hérlendis var 26 ár á meðan að hann var að meðaltali 22 ár innan OECD. Á Íslandi eru háskólanemar að ljúka BS- eða BA-gráðum liðlega 30 ára gamlir á meðan að meðaltals aldur þeirra sem ljúka sambærilegu námi innan OECD-landa er 26 ár. Íslendingar eru því að byrja í náminu á sama tíma og meðalnemandi innan OECD-ríkjanna er að ljúka því.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið 9. október síðastliðinn að niðurstöðurnar hljóti að vera okkur Íslendingum alvarlegt umhugsunarefni. „Háskólanemar okkar eru að koma eldri inn í háskólana en í öðrum OECD-ríkjum. Því fyrr sem fólk lýkur prófi, þeim mun betur nýtist menntunin,“ sagði Illugi enn fremur.
Þetta vakti athygli í Bakherberginu og varð til þess að menn/konur sem þar dvelja fóru að velta því fyrir sér hvernig ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar passa þetta meðaltal.
Samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis lauk enginn einn ráðherra BS- eða BA-námi eftir þrítugt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var þrítugur þegar hann lauk sínu BS-prófi í viðskipta- og hagfræðideild og er því meðaltalsmaður í námslengd.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, var á 28 aldursári þegar hann útskrifaðist með BS-próf í hagfræði. Hann náði sér síðar í MBA-gráðu frá London School of Economics.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fór aðra námsleið en flestir stjórnmálamenn. Hann lauk skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og tók síðar kennsluréttindindapróf við Háskóla Íslands 27 ára gamall. Hann stundaði einnig nám í íslensku og almennum bókmenntum en lauk ekki prófi.
Þau Eygló Harðardóttir (Fil-kand.-próf í listasögu), Hanna Birna Kristjánsdóttir (BA-próf í stjórnmálafræði), Ragnheiður Elín Árnadóttir (BA-próf í stjórnmálafræði), Bjarni Benediktsson (BA- próf í lögfræði) og Sigurður Ingi Jóhannsson (embættispróf í dýralækningum) kláruðu öll sínar grunngráður í háskóla fyrir þrítugt. Þau Bjarni, Hanna Birna og Ragnheiður Elín luku síðar Mastersgráðum líka.
Eini ráðherrann sem enn hefur ekki náð sér í neitt háskólapróf er Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Hann lauk stúdentsprófi 21 árs gamall og stundaði nám í atvinnulífsfélagsfræði við Háskóla Íslands, en lauk því ekki.