Það kemur ekki nokkrum manni á óvart að sitjandi ríkisstjórn ætlar sér ekki að ganga í Evrópusambandið. Hún boðaði hins vegar fyrir um ári síðan nýja Evrópustefnu sem átti að byggja á „efldri hagsmunagæslu á vettvangi samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði (EES) og annarra gildandi samninga Íslands og Evrópusambandsins (ESB)“.
Á meðal þess sem átti að gera var að fjölga starfsfólki í Brussel til að reyna að hafa áhrif á lagasetningar sem Ísland verður að taka upp. Starfsfólkinu hefur ekki fjölgað neitt. Í nýrri skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál segir meira að segja orðrétt: „Aðhalds verður áfram gætt í utanríkisþjónustunni og tryggt að ráðuneytið verði rekið innan fjárheimilda, þrátt fyrir niðurskurð á fjárlögum undanfarinna ára“.
Þess í stað var sent bréf til Evrópusambandsins sem átti að marka endalok umsóknarferlis Íslendinga að sambandinu. Evrópusambandið túlkar það reyndar alls ekki þannig og telur Ísland enn vera umsóknarríki og sumir stjórnarliðar hafa sagt bréfið fyrst og síðast vera staðfestingu á afstöðu ríkisstjórnarinnar í garð aðildar. Til viðbótar hefur stjórnarandstaðan sent Evrópusambandinu bréf og segir ríkisstjórn Íslands ekki hafa umboð til að slíta viðræðum. Þessi hrærigrautur meininga, túlkana og ævintýralegs klaufaskapar allra sem að málinu koma er ekki til þess fallinn að bæta stemmninguna milli Evrópusambandsins og íslenskra stjórnvalda.
EES-samningurinn gæti auk þess verið í uppnámi ef ekki tekst að semja um hver framlag Íslands og hinna EFTA-ríkjanna á að vera í Þróunarsjóð EFTA-, sem oft eru kallaðar aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópu, það gjald sem EES-löndin þrjú greiða fyrir EES-samninginn. Síðasta samkomulag rann út fyrir tæpu ári og algjör pattstaða er uppi í viðræðunum.
g nýverið kom fram minnisblað frá John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Baracks Obama forseta landsins, sem er dagsett 23. janúar 2015, þar sem segir beinleiðis að bandarískir ráðamenn forðist samskipti við Ísland ef þeir geta komist hjá því.
Fyrir ári síðan gerðu síðan Norðmenn, Færeyjar og Evrópusambandið samkomulag um makrílveiðar í Atlantshafi án aðkomu og vitundar Íslands. Og nýverið kom fram minnisblað frá John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Baracks Obama forseta landsins, sem er dagsett 23. janúar 2015, þar sem segir beinleiðis að bandarískir ráðamenn forðist samskipti við Ísland ef þeir geta komist hjá því. Ástæðan er fyrst og síðast andstaða þeirra við hvalveiðar Íslendinga.
Í bakherberginu er því eðlilega spurt: hver er utanríkisstefna Íslendinga? Í ljósi ofangreindra atburða, hverjir eru helstu bandamenn okkar? Og hvernig á að hátta alþjóðasamskiptum okkar til framtíðar?
Þegar stórt er spurt er oft ekkert um svör.