Að undanförnu hafa verið sagðar fréttir af ýmsu sem tengist afnámi hafta og endurskipulagningu á íslenska fjármálakerfinu, sem rekja má til hrunsins haustið 2008 og aðgerðanna sem gripið var til í kjölfarið, til að verja hagkerfið og almenning. Stjórnmálamenn settu á fjármagnshöft með lögum og hefur vinna við slitabú föllnu bankanna tekið mið af þeim, eins og endurskipulagning fjármálakerfisins.
Margt bendir til þess að tíðinda sé að vænta af þessari vinnu, og fjármagnshöft verði brátt rýmkuð og eignarhlutir í bönkunum jafnvel seldir á næsta ári. Segja má að þetta sé allt hluti af endurskipulagningu á hagkerfinu, í kjölfar neyðaraðgerðanna 2008.
Í bakherberginu er því velt upp, hvers vegna mikil leynd hvíli yfir allri þessari vinnu sem trúnaðarmenn stjórnmálamanna eru sinna í samráði við ráðgjafa og fleiri sérfræðinga. Er hún nauðsynleg? Hvaða hagsmunir eru í húfi af leyndinni? Kröfuhafar í bú föllnu bankanna eru fyrir löngu búnir að undirbúa allar mögulegar sviðsmyndir þegar kemur að aðgerðum, sem miða að því að rýmka fjármagnshöftin og losa um þrýsting á gengi krónunnar vegna krónueignar erlendra aðila, það er þeirra að stóru leyti. Öll vinna sem unnin hefur verið, og er skjalfest að miklu leyti í skýrslum og minnisblöðum, ætti alveg að geta farið fram fyrir opnum tjöldum vegna þessara aðstæðna sem uppi eru, segir fólkið í bakherberginu.
Það heldur því einnig fram að leynd stjórnmálamanna, sem meðal annars hafa búið til starfshóp fulltrúa úr öllum flokkum um þetta mál sem starfar með svo mikilli leynd að hann má ekki segja neinum neitt - allra síst vinnuveitandanum, það er almenningi - þegar að þessari mikilvægu vinnu kemur, sé ekki eitthvað sem sagan muni dæma vel. Gagnsæið og jafnt aðgengi allra að gögnum - í aðstæðum þar sem vitað er um alla möguleika í stöðunni - er það sem getur skapað traust á þessum aðgerðum.
Á sama tíma gerir fólkið í bakherberginu sér grein fyrir því, að hugmyndir eins og þessar, séu tær útópía eins og stjórnmálalandslagið er nú. Því miður...