Jæja, það virðist vera komin PR-herferð í gang til að kæfa niður óánægjuraddirnar sem munu að öllum líkindum koma fram þegar niðurstöðurnar úr leiðréttingaraðgerð stjórnvalda liggja fyrir og verða kynntar í næstu viku. Sum verða ósátt, önnur ekki. Það er varla tilviljun að nú er búið að draga fram eitthvert mesta skotgrafarhernaðarmál seinni tíma í íslenskum stjórnmálum, Vatnsmýrarflugvallarmálið. Lagt hefur verið fram frumvarp þar sem lagt er til að skipulagsvald yfir flugvallarsvæðinu verði fært til Alþingis frá Reykjavíkurborg. Og bardaginn er byrjaður; landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu er nú verið að koma fyrir í skotgröfunum svo stjórnarflokkarnir geti alltaf hóað í baklandið, til að senda drullukökur úr einni skotgröfinni yfir í hina, ef þetta verður erfitt í leiðréttingarumræðunni.
Í bakherberginu tóku margir sérstaklega eftir því hvað Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var fljótur til. Hann sagði orðrétt í pistli: „Og á sama tíma og það er verið að tala um að eyðileggja flugvöll, sumir tala reyndar um að færa flugvöll en ég veit ekki hvernig það er hægt, en þeir ætla að eyðileggja flugvöllinn og á sama tíma og sama svæði erum við að tala um, og allir sammála um það, að byggja upp hátæknisjúkrahús sem kostar 80 milljarða. En við eigum ekki efni á því. En það er allt í lagi að eyðileggja heilan flugvöll. Ég spyr, er fólk ekki alveg með á nótunum?“ Svo mörg voru þau orð. Skemmtilegt að hann skuli minnast á þessa 80 milljarða, sem er um það bil sama upphæð og er nú verið að sækja í ríkissjóð til að leggja inn á verðtryggðar skuldir fólks, aðallega í Reykjavík. Skítt með landsbyggðina í þeim aðgerðum, hún fær aðeins brot af því sem höfuðborgarsvæðið fær. En það er heyrist ekkert um það! Það er kannski af því að baklandið á landsbyggðinni er komið ofan í skotgrafirnar og bíður skipana þar.
Leiðrétt: Í fyrstu útgáfunni var tekið fram, að lagt hefði verið fram stjórnarfrumvarp um breytingar á skipulagsvaldi yfir flugvallarsvæðinu. Þetta er ekki rétt, heldur er um hefðbundið frumvarp þingmanna að ræða.