Í bakherberginu hefur fólk sem venju að tala helst um stjórnmálamenn sem eina heild, óháð flokkum. Það hjálpar til við að sjá stóru myndina þegar kemur að verkefnum stjórnmálamanna; á endanum skiptir það almenning ekki öllu máli í hvaða flokkum fólkið er sem tekur ákvarðanir.
Ekki síst þess vegna hefur verið forvitnilegt og áhugavert að fylgjast með umræðu um hvernig mögulegt getur verið að rýmka fjármagnshöftin og með tímanum hugsanlega afnema þau. Í bakherberginu rifjar fólk upp að ekki sé annað að sjá en að orð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í gegnum árin standast nokkuð vel; afnám hafta þarf að skoðast í samhengi við aðstæður í efnahagslífinu og útfærslan fer að einhverju leyti eftir þeim. Síðan hafa stjórnvöld og seðlabankinn aðeins „eitt skot“ sem verður að heppnast. Það hefur ekki farið framhjá neinum að skotfærið er núna, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, virðist átta sig vel á mikilvægi góðrar samvinnu við seðlabankann um þetta mál. Bjarni er að halda vel á spöðunum, segir fólkið í bakherberginu.
Einn þeirra stjórnmálamanna sem mætti láta meira til sín taka í opinberri umræðu, að mati fólks í bakherberginu, er Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Hún hefur alla burði til þess að verða helsti leiðtogi félagshyggjufólks á Íslandi, ef hún er það þá ekki nú þegar, kannski ómeðvitað. Hún er virt af andstæðingum sínum og samherjum ekki síst fyrir hvað hún er skörp, segir fólkið í bakherberginu. Þetta sést ágætlega í greiningu sem hún skrifaði á hina ágætu vefsíðu snjóhengjan.is fyrir kosningarnar í fyrra, sem Jóhann Jóhannsson rekstrarhagfræðingur er í forsvari fyrir, en henni er ætlað að efla vitund almennings um snjóhengjuvandamálið og afnám hafta.
Katrín segir orðrétt: „Útgönguskattur kæmi einnig til greina ef ekki væri útlit fyrir viðunandi niðurstöðu í samningum. Aðalatriðið er að uppgjörið sé sett í samhengi við aðra þætti í afnámsferli gjaldeyrishafta eins og gömlu snjóhengjuna. Einnig þarf að tryggja að ekki verði fall á gengi krónunnar en það myndi ógna stöðugleika hagkerfisins og hafa mikil áhrif á heimili og fyrirtæki vegna þeirra verðbólgu sem slíkt hefði í för með sér. Vinna við afnám gjaldeyrishafta er forgangsmál og stjórnvöld eiga að fá utanaðkomandi aðila til að tryggja að farið verið í það ferli með heildrænum hætti. Við leysum þetta mál ekki með því að taka á afmörkuðum vanda innan haftanna heldur með því að ná utan um umfang hans í heild. Snjóhengjan er einn þáttur en vinnu við hana þarf að skoða í samhengi við uppgjör þrotabús bankanna enda á þjóðarbúið takmarkaðan gjaldeyri til að greiða til aðila sem vilja út með sínar krónur. Þetta er því ekki einungis skuldavandi heldur gjaldeyrisvandi líka. Einnig er mikilvægt að sú þverpólitíska nefnd sem hefur unnið að afnámsferlinu haldi áfram til að tryggja samstöðu um ferlið.“
Þetta er nokkurn veginn það sem stjórnvöld eru að gera núna, og seðlabankinn hefur raunar alltaf lagt upp með...