Það hefur vart farið framhjá neinum að læknar eru í verkfalli. Fresta hefur þurft tugum skurðaðgerða undanfarna daga, meðal annars hjartaþræðingum og flóknum hjartaaðgerðum. Staðan í kjaraviðræðum lækna og ríkisins virðist vera þannig að læknar vilja yfir 30 prósent launahækkun á meðan að ríkið býður um þrjú prósent. Nánast ómögulegt virðist að deiluaðilar nái saman við þessar aðstæður.
Í Bakherberbergjunum er mikið rætt um hvort þessi staða sé dæmi um neyð. Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem fór lengst af kjörtímabils með málaflokk dómsmála, hefur nefnilega sagt opinberlega að lagasetning á verkfallsaðgerðir ætti að vera neyðarúrræði.
Slíkt neyð hefur komið upp þrisvar á þessu ári. Fyrst voru sett lög á verkfall starfsmanna Herjólfs í mars. Í maí voru sett lög á verkfall flugmanna Icelandair, einkafyrirtækis sem skráð er á markaði og ríkið á ekkert í, með þeim rökum að fyrirtækið væri að tapa svo miklum peningum ef starfsmenn þess færu í verkfall. Loks var þing kallað saman til að samþykkja lög til að koma í veg fyrir verkfall flugvirkja í júní, sem hefðu líka kostað flugiðnaðinn og þjóðarbúið skildinginn. Flugvirkjar hættu við verkfallið til að koma í veg fyrir lagasetninguna.
Nú er Hanna Birna ekki lengur ráðherra dómsmála heldur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann ætlar ekki að setja lög á verkfall lækna, trúir því að deilan muni leysast og segir ekki vera hefð fyrir því að stjórnvöld grípi inn í kjaradeilur.
Kannski skapast ekki neyð samkvæmt skilgreiningu ríkisstjórnarinnar þegar ekki er hægt að sinna sjúkum. Slík neyð skapast ekki nema það séu peningar sem eru í hættu.