Nú er genginn í hönd sá tími árs, þar sem búast má við örtröð óskipulagðra Íslendinga í verslunum, í viðleitni sinni til að kaupa síðustu jólagjafirnar þetta árið.
Eins og flestir hafa vafalítið tekið eftir er umferð tekin að þyngjast verulega um götur höfuðborgarinnar, og verslanir eru þéttsetnar með tilheyrandi viðrekstrum og olnbogaskotum.
Í bakherberginu var af þessu tilefni rifjuð upp lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg, að gamni, þar sem skýrt er kveðið á um hvernig bregðast skuli við í mannþröng á almannafæri.
Með almannafæri er í lögreglusamþykktinni átt við götur, vegi, gangstéttar, gangstíga, svæði ætluð til almenningsnota og staði sem eru opnir almenningi, svo sem kvikmyndahús, leikhús, samkomuhús, söfn, veitingastaðir, verslanir, leiktækjastaðir, bifreiðastöðvar, biðskýli og söluturna.
Svo segir orðrétt í 5. grein lögreglusamþykktarinnar: „Þegar fjölmenni safnast saman á almannafæri svo sem í eða við biðstöðvar almenningsvagna og leigubifreiða, miðasölur, banka, veitingastaði, verslanir og aðra afgreiðslustaði, skal fólk að jafnaði raða sér þannig að þeir, sem fyrstir koma, fái fyrstir afgreiðslu.“
Í bakherberginu finnst körlum og konum sposkt að sérstaklega sé kveðið á um hvernig fólk eigi að haga sér í fjölmenni í lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar. Í ljósi þess hvernig Íslendingurinn hagar sér í jólastressinu, er það kannski ekkert svo heimskuleg hygmynd.