Búist er við því að hver og einn sem sótti um skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar fái að vita hvað falli í hans skaut í lok vikunnar. Upphaflega stóð reyndar til að niðurstaðan yrði tilkynnt í byrjun októbermánaðar, en það hefur ítrekað frestast, meðal annars vegna þess að ekki hafa náðst samningar við Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka um niðurfærslur þeirra verðtryggðu lána sem eru hjá bönkunum, að minnsta kosti þegar síðast fréttist. Ljóst er hins vegar að margir sem kusu Framsóknarflokkinn í þeirri von að húsnæðislánin þeirra myndu hverfa búast við því að fá dágóða summu inn á lánið sitt í byrjun næstu viku. Það er hætt við því að þeir verði fyrir vonbrigðum.
Í Bakherbergjunum hafa menn nefnilega verið að reikna. Alls sóttu 69 þúsund manns um skuldaniðurfellingu. Hún á að kosta 72 milljarða króna og mun greiðast út á fjórum árum. Það þýðir að ef allir sem sóttu um verða samþykktir mun hver og einn fá rúma milljón króna að meðaltali í heildarniðurfærslu. Sú upphæð sem hver og einn getur að meðaltali búist við að fá greitt inn á lánið sitt eftir helgi er um 261 þúsund krónur.
Stjórnvöld þurfa því að undirbúa almannatengslin nokkuð vel áður en niðurfellingaráhugafólkið fær fréttirnar því hætt er við að þeir allra síðustu sem enn eru á þeim vagni muni kippast við, og jafnvel hoppa af, þegar pizzu-sendingin margunmrædda verður lítið annað en ísköld hálf níu tomma.
Ef fólk sættir sig ekki við niðurstöðuna verður að vísu hægt að vísa henni til sérstakrar áfrýjunarnefndar sem þegar hefur verið skipuð. Í hana var skipað af fjármálaráðherra og samkvæmt tilnefningu frá Hæstarétti. Í Bakherbergjunum er talað um þessa nefnd sem eina þá skrýtnustu sem skipuð hefur verið. Hlutverk hennar er beinleiðis að bregðast við óánægju þeirra sem eru ekki sáttir með magn peninga sem stjórnvöld ákváðu að gefa því á kostnað annarra.
Athugasemd frá Frosta Sigurjónssyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar:
„Höfuðstóll húsnæðislána lækkar í einu lagi og en ekki í fjórum áföngum eins og ýjað er að í bakherberginu. Bankarnir fá hins vegar greitt í fjórum áföngum."