Magnús Garðarsson var ráðinn framkvæmdastjóri United Silicon, sem hyggst reisa og reka kísilverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ, í sumar. Magnús bjó áður lengi í Danmörku þar sem hann lauk prófi í verkfræði við Tækniháskólann í Danmörku (DTU) og síðar meistaranámi í umhverfisverkfræði frá sama skóla.
Á meðan að Magnús var við nám æfði hann einnig dýfingar af miklum móð og náði meðal annars að verða tvívegis Danmerkurmeistari í greininni. Svo mikil alvara var í dýfingarferli Magnúsar að hann tók hluta af námi sínu við Florida Atlantic háskólann í Boca Raton í Bandaríkjunum sökum þess að dýfingarþjálfarar skólans þykja yfirburðar. Hann ætlaði nefnilega að reyna að komast á Ólympíuleikanna í Atlanta árið 1996.
Í samtali við Viðskiptablaðið í ágúst síðastliðnum sagði Magnús: „Ég var ansi nálægt því að komast á Ólympíuleikana en ég meiddist á hné í lok árs 1995 og þar með var sá draumur úti.“
Dýfingardraumurinn var reyndar ekki alveg úti því að Magnús hélt áfram að dýfa sér. Á internetinu er meðal annars hægt að sjá einvígi Magnúsar og Orlando Duque í heimsmeistaramótinu í klettadýfingum í Aþenu árið 2002 (e. Cliff diving World Cup Athens 2002). Magnús náði ekki að skaka Duque í þetta sinnið en var engu að síður magnaður. Sjón er sögu ríkari.
https://www.youtube.com/watch?v=bKBh8Jx__jU