Útvarpsþátturinn Rokkland, sem hefur verið óslitið á dagskrá Rásar 2 í hverri viku frá haustinu 1995, er kominn í frí fram í mars. Ólafur Páll Gunnarsson, sem hefur haft umsjón með þættinum í þau 19 ár sem hann hefur verið í loftinu, tilkynnti þetta í lok þáttarins í gær. „Ég var beðinn um að taka mér smá pásu í fjóra mánuði [...]það verður gott að fá smá frí, og kannski verða einhverjir aðrir fegnir,“ sagði Ólafur Páll við hlustendur sína á þessum tímamótum.
Ólafur Páll Gunnarsson var 26 ára þegar Rokkland hóf göngu sína. Hann er nú 45 ára.
Í stað Rokklandsins munu hinir ógurlega vinsælu þættir „Árið Er“ hefja göngu sína á ný. Nú verður farið yfir árin 2006 og út tónlistarárið 2013, en þættirnir voru settir á ís í niðurskurðaraðgerðum hjá RÚV sem áttu sér stað í lok síðasta árs.
Í Bakherberginu er pískrað um að það sé alveg möguleiki á því að það sem verði sett á ís núna hjá RÚV eigi mögulega ekki afturkvæmt. Ef stjórnmálamenn ákveða að RÚV fái ekki útvarpsgjaldið að fullu, heldur endurskilgreini hlutverk fyrirtækisins og láti það skera burtu stóra liði í þeirri dagskrá sem nú er boðið upp á, gæti Rokkland og margir fleiri gamlir vinir margra heyrt sögunni til.