Átökin um RÚV hafa vart farið framhjá neinum. Afleiðing ákvörðunar ríkisstjórnarinnar, verði hún að veruleika, mun nær örugglega þýða miklar breytingar á starfsemi RÚV, enda nemur fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins því að Rás 1 og Rás 2 verði báðar lagðar niður með öllu. Og niðurskurðurinn mun án nokkurs vafa leiða til mikilla breytinga á fréttastofu RÚV með tilheyrandi uppsögnum og skertri fréttaþjónustu.
Í bakherbergjunum er mikið rætt um að þessi staða þurfi ekki að koma á óvart. Áhrifamenn í báðum flokkum hafi lengi ýjað að því að þeir væru mjög óánægðir með fréttaflutning RÚV og varað við því að frammistaða ríkisfjölmiðilsins gæti haft afleiðingar, hætti hann ekki þessum neikvæða fréttaflutningi af verkum ríkisstjórnarinnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sló tóninn í greininni „Fyrsti mánuður loftárása“ sem birtist í Morgunblaðinu 25. júní 2013. Þar gagnrýndi hann RÚV fyrir að fjalla meira um undirskriftarlista gegn lægri veiðigjöldum en fréttastofa miðilsins gerði um undirskriftasöfnun gegn Icesave. Í greininni sagði forsætisráðherrann: „Það er ekki langt síðan fyrsta hreina vinstristjórnin fór frá völdum eftir sögulegt tap í kosningum. Á meðan sú ríkisstjórn var að gera sínar bommertur leið varla sá dagur að við sem þá vorum í stjórnarandstöðu spyrðum ekki hvort annað „hvernig væri umfjöllun fjölmiðla ef ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði gert annað eins?“ Svo var brosað að tilhugsuninni um hvers konar „loftárásir“ slík ríkisstjórn hefði fengið yfir sig vegna sambærilegra mála“.
Sigmundur Davíð bætti við gagnrýnina í viðtali við Frjálsa verslun 7. mars síðastliðinn. Þar sagði hann fjölmiðla hafa tekið stöðu með Evrópusambandsaðild eftir að ríkisstjórnin reyndi að draga umsókn um slíka til baka. „Í þessu máli höfum við að öllum líkindum horft upp á mestu fjölmiðlaherferð Íslandssögunnar,“ sagði forsætisráðherrann. Síðar í viðtalinu barst talið að fréttaflutningi RÚV og þar sagði hann: „Ég tel ekki að Rikisútvarpinu sé stjórnað af einhverjum stjórnmálamönnum eða flokkum eða að bein tenging sé þangað inn frá ákveðnum flokkum. Hins vegar er ákveðinn kúltúr ríkjandi á fjölmiðlum eins og á öðrum vinnustöðum, og það hefur verið reynslan, ekki aðeins hér heldur víðar, að vinstrisinnað fólk leitar meira í þessi störf“.
Á Morgunblaðinu ræður ríkjum annar umdeildur stjórnmálamaður, Davíð Oddsson, sem hefur ekki síður óbeit á fréttastofu RÚV. Í Reykjavíkurbréfi 5. október 2013 lét Davíð, sem er fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, umfjöllun fréttastofu RÚV í Búsáhaldarbyltingunni fara mikið í taugarnar á sér og sagði: „Ríkisútvarpið, stofnunin með öryggishlutverkið í öndvegi skyldna sinna, dró grímulaust taum aðsúgsmanna, útvarpaði og sjónvarpaði æsingaræðum sem enginn fékk að svara og tilkynningum um hvert skyldi sækja næst. Stofnunin, sem þykist vera meðvituð um að hún hafi sérstöku öryggishlutverki að gegna sem réttlæti að almenningur í landinu sé neyddur til að greiða yfirgengilegar fúlgur til að reka hana, fór svona að ráði sínu.
Pólitísk misnotkun, sem vissulega ofbýður sífellt fleirum, er stóralvarleg, en þó er hún eins og hégómi hjá framantöldum atriðum. En saman sýna þau að það er eitthvað stórkostlega brogað við þessa starfsemi og þar á bæ virðist ekki nokkur maður með ábyrgð líta í eigin barm. En kann ekki svo að fara, rétt eins og 1984, að svo alvarleg mistök ásamt viðvarandi og síversnandi misnotkun og yfirgangi fámenns hóps, sem kemst upp með að haga sér eins og hann eigi Ríkisútvarpið, ofbjóði langlundargeði landsmanna og opni augu þeirra?
Davíð hefur bætt vel í gagnrýni sína undanfarna daga og vikur. Margir Staksteinar og leiðarar hafa verið helgaðir þvi sem hann kallar „Sérréttindastofnunina Ríkisútvarpið ohf. Í Reykjavíkurbréfi um síðustu helgi ásakaði hann svo Ríkisútvarpið um mikinn pólitískan halla til vinstri. Þar sagði Davíð að breska ríkisútvarpið BBC hafi lengi vel verið talið „vel hallandi á vinstri kantinn og sú stofnun hefur sýn þá dygð að neita því aldrei beint. Enda hallinn þar í rauninni lítill, þótt eftir honum sé tekið. Hann er þannig miklu minni en hallinn á skakkaturninum í Písa. Og BBC er eins og hvítskúraður ófullur engill hjá skakkaturninum í Efstaleiti.“
Í bakherbergjunum gerir fólk sér grein fyrir hversu áhrifamiklir Sigmundur Davíð og Davíð eru í sínum kreðsum. Ef fjölmiðill er kominn í óvinahólf þeirra vegna þess að þeim líkar ekki fréttaflutningur hans þá getur sá átt von á því að umfjöllun hans muni hafa afleiðingar. Þær afleiðingar virðast vera að raungerast núna hvað varðar RÚV.
Nú þegar verið er að refsa RÚV fyrir gagnrýnan fréttaflutning um sitjandi ríkisstjórn, sem sé hluti af röngum málstað í umræðunni, er vert að rifja upp niðurlag hinnar frægu „loftárásargreinar“ Sigmundar Davíðs frá því í júní 2013. Þar sagði: „Það er ógnun við lýðræði ef rökræða fær ekki að eiga sér stað, ef ákveðið er frá byrjun að aðeins annar málstaðurinn sé réttur og allt sem styður við þá mynd fær greiða leið i gegn en önnur sjónarmið hverfa“.
I bakherbergjunum taka menn undir þessi orð forsætisráðherrans.