Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra verður gestur Jóns Ársæls Þórðarsonar í sjónvarpsþættinum Sjálfstæðu fólki, sem sýndur verður á Stöð 2 næstkomandi sunnudagskvöld. Þegar sú stund rennur upp mun Sigmundur Davíð hafa verið gestur í þremur mismunandi sjónvarpsþáttum hjá Stöð 2, þrjár helgar í röð.
Það vill nefnilega svo til að forsætisráðherra var gestur Loga Bergmann í samnefndum sjónvarpsþætti á stöð 2 föstudagskvöldið 10. október þar sem slegið var á létta strengi, og þá sat Sigmundur Davíð fyrir svörum í sjónvarpsþættinum Eyjunni, í umsjón Björns Inga Hrafnssonar, sunnudaginn 19. október, þar sem forsætisráðherrann meðal annars dásamaði skuldaniðurfellinguna.
Í bakherberginu er velt vöngum yfir gríðarlegum vinsældum forsætisráðherra hjá 365 fjölmiðlasamsteypunni, en að baka til var líka töluvert smjattað á því þegar Björn Ingi, fyrrum Framsóknarforkólfur í borginni, og Jón Ásgeir efndu til samstarfs á sínum tíma sem meðal annars leiddi til þess að sá fyrrnefndi byrjaði með sinn eigin sjónvarpsþátt á Stöð 2.
Þá vekja tíðar komur forsætisráðherra inn á sjónvarpsskjái landsmanna, í boði Jóns Ásgeirs og 365, ekki síður athygli í bakherberginu fyrir þær sakir að fréttastofu RÚV hefur ekkert gengið að fá Sigmund Davíð í viðtal að undanförnu til að svara fyrir þau mál sem helst klaga upp á Framsóknarflokkinn, og eru þau ófá, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Til að mynda hefur bakherbergið áreiðanlegar heimildir fyrir því að fréttastofan hafi reynt nánast sleitulaust síðan á laugardaginn að fá viðtal við forsætisráðherrann, án árangurs.
En kannski á tregða forsætisráðherra gagnvart RÚV sér eðlilegar skýringar. Hann er jú mjög upptekinn maður.