Oddgeir Ágúst Ottesen, hagfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, skrifaði harðyrta grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, undir fyrirsögninni: „Um blekkingar og áróður um „Leiðréttinguna.““ Greinin vakti athygli og eilitla kátínu í bakherberginu.
Í greininni hjólar varaþingmaðurinn bæði í sjálfar skuldaniðurfellingaraðgerðirnar, sem og skrif þingmanna Framsóknarflokksins um aðgerðirnar.
Oddgeir segir rangfærslur og villandi umfjöllun hafa einkennt umræður og skrif um niðurstöður „Leiðréttingarinnar“ og skrifar: „Þingmenn Framsóknarflokksins hafa til dæmis í riti og ræðum í kjölfar kynningarinnar lagt áherslu á að „Leiðréttingin“ gagnist fyrst og fremst þeim tekjulægri í þjóðfélaginu. Líneik A. Sævarsdóttir og Karl Garðarson, þingmenn Framsóknarflokksins, fullyrða til dæmis í Morgunblaðinu 17. nóvember síðastliðinn að jöfnun milli tekjuhópa einkenni aðgerðina og að í raun eigi sér stað tilfærsla frá tekjuhærri hópum til tekjulægri! Þessi fullyrðing er mjög fjarri raunveruleikanum.“
Að mati Oddgeirs gengur leiðréttingin fyrst og síðast út á að bæta hluta af þjóðinni upp hluta af tapi vegna bankahrunsins, og að fyrirliggjandi gögn sýni að þeir tekjuhærri séu að meðaltali að fá mun meira í sinn hlut. Þá bendir Oddgeir á að einstaklingar með undir 500 þúsund krónur í mánaðartekjur séu að fá að meðaltali 130 þúsund krónu í sinn hlut í leiðréttingunni, á meðan einstaklingar með yfir 500 þúsund krónur í mánaðartekjur fá að meðaltali um 440 þúsund krónur út úr skuldaniðurfærslunni.
„Heildarfjárhæð leiðréttingarinnar er um 75 milljarðar króna. Ef þessari fjárhæð hefði verið dreift á alla skattgreiðendur hefði hver skattgreiðandi fengið um 280.000 krónur í sinn hlut. Eðlilegt er að líta svo á að hinir tekjulægri eigi jafnmikinn hlut í almannafé og hinir tekjuhærri. Aðgerðir stjórnvalda fela því í raun í sér að tekjulágir greiði tekjuháum bætur.“
Þá segir Oddgeir að stjórnmálamenn hafi túlkað árslaun upp á sjö milljónir króna hjá einstaklingum og 16 milljónir króna hjá fólki í sambúð sem lág laun, og þeir hafi bent á að 75 prósent af leiðréttingunni fari farið til fólks með tekjur undir þessum viðmiðunarmörkum. Gögn frá Ríkisskattstjóra sýni hins vegar að tæp 90 prósent af skattframteljendum séu undir þessum viðmiðunarmörkum, og því fái um 10 prósent hinna tekjuhæstu um 25 prósent leiðréttingarinnar. Þá sýni gögn Hagstofunnar að helmingur fólks í fullri vinnu árið 2013 hafi haft lægri heildarlaun en 464 þúsund krónur á mánuði.
„Jafnvel þótt stjórnmálamenn endurskilgreini hvað séu lág laun í landinu, þá breytist það ekki að skuldaniðurfellingin felur í sér tilfærslu á fjármunum frá hinum tekjulægri til hinna tekjuhærri,“ skrifar varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins að endingu.