Lögmannafélag Íslands sendi frá sér ályktun 24. nóvember síðastliðinn þar sem það gerir þann tíma sem fjölmargir einstaklingar hafa haft réttarstöðu sakbornings í rannsóknum embættis sérstaks saksóknara að umtalsefni, en margir hafa haft slíka stöðu í allt að fimm ár og þrjá mánuði.
Ályktunin byggir á skriflegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið. Í henni segir stjórn Lögmannafélags Íslands: „Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í framangreindu svari dómsmálaráðherra, sér Lögmannafélag Íslands sérstaka ástæðu til að vekja athygli opinberra rannsóknaraðila á mannréttindum sakaðra manna og hvetur þá sem koma að rannsókna mála til að virða þær grundvallarreglur sem lögfestar hafa verið hér á landi.“
Í bakherbergjunum hafa menn og konur klórað sér í höfðinu yfir ályktuninni, enda stjórn Lögmannafélagsins hingað til verið mest í því að gagnrýna rannsóknaraðila, mörgum meðlimum félagsins til mikils ama.
Í desember 2008 sendi laganefnd félagsins til dæmis frá sér ályktun vegna þess að hún hafði áhyggjur af því að rannsóknarnefnd Alþingis bryti á mannréttindum fólks. Sumarið 2009 sendi félagið frá sér ályktun þar sem talað var um „svokallað bankahrun“ og hlaut bágt fyrir, þótt ályktunin hafi í meginatriðum kallað eftir því að reglur réttarríkis væru virtar. Í febrúar 2014 ályktaði stjórn Lögmannafélagsins vegna dóms í Al-Thani málinu og sagði að sú réttaróvissa sem uppi væri um stöðu aðila og vitna í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Al Thani-málinu vera mjög bagalega og geta haft veruleg áhrif á þau sakamál sem nú séu til meðferðar fyrir dómstólum.
Í september sendi stjórnin svo ályktun til dómsmálaráðherra varðandi samskipti verjenda og vitna vegna ábendinga um samskipti lögmanna og verjenda, framsetningu dóma í sakamálum, símahlustanir, húsleit og sönnunarbyrði.
En í nýjustu ályktun sinni virðist stjórn Lögmannafélagsins beinleiðis kalla eftir styrkingu embættis sérstaks saksóknara.
En í nýjustu ályktun sinni virðist stjórn Lögmannafélagsins beinleiðis kalla eftir styrkingu embættis sérstaks saksóknara.
Í samtali við Kjarnann í byrjun október sagði Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, nefnilega að sá niðurskurður sem boðaður var til embættisins á fjárlögum myndi leiða til þess að embættið gæti rétt sinnt þeim málum sem nú þegar eru komin til dómstóla. Þau fjórtán mál sem biðu rannsóknar, 96 mál sem væru í rannsókn (þar af 39 svokölluð hrunmál) og ellefu hrunmál sem biðu ákvörðunar um saksókn myndu þurfa að sitja á hakanum.
Embættinu væri ókleift að sinna rannsókn þeirra með þeim peningum sem því væri skammtað og þar af leiðandi geti það ekki tekið ákvörðun um að ákæra menn eða aflétta réttarstöðu þeirra sem sakborninga.