Ný bók um Björgólf Thor Björgólfsson hefur vakið mikla athygli undanfarna daga. Björgólfur hefur verið í viðhafnarviðtölum við suma íslenska fjölmiðla og aðrir hafa birt heilu kaflanna úr henni.
Bókin er nokkurs konar uppgjör Björgólfs við hrunið og um leið boðun á endurkomu hans í fullorðinsdeild alþjóðlegra viðskipta, enda Björgólfur aftur orðinn stjarnfræðilega ríkur eftir að átt á hættu að missa nánast allt sitt. Eða svona næstum því.
Í bókinni fer Björgólfur, sem er viðurkenndur samningafíkill, yfir hvernig hann varð ríkur á að selja bjór í stórhættulegu Rússlandi, hvernig egó og minnimáttarkennd dreif hann áfram í að kaupa Landsbankann á sínum tíma, 30 milljarðanna sem hann setti í sjóð handa börnum sínum, ástina, einkaþotur, karlaferðir, afmælisveislur með 50 cent og allt hitt sem góður fjárfestaþriller þarf að innihalda.
Þótt bókin sé augljóslega skrifuð fyrir alþjóðlegan markað þá er einnig að finna í henni skilaboð til Íslendinga. Björgólfur leiðréttir meðal annars þann hvimleiða misskilning að orsök hrunsins hafi verið að finna í íslensku bönkunum og fræðir okkur um að grunnur þess hafi legið í brotalömum alþjóðafjármálakerfisins.
Lesendur í bakherbergjunum hnutu um þessa skýringu hans og sérstaklega hvernig Björgólfur ákvað að setja hana fram. Í bókinni stendur nefnilega orðrétt að „atburðir áranna 2007 og 2008 voru alþjóðlegir. Í þetta sinn þá var eins og bókstaflega allir á hinum vestrænu mörkuðum væru að reykja krakk (e. crack cocaine) og hafi ekki tekið eftir því að kerfið í heild sinni, eignamarkaðir og jafnvel heilu þjóðríkin, væru að falla“.
Í kjölfarið spáir Björgólfur því að alþjóðleg kreppa muni ríða yfir næstu eftir tólf til 24 mánuði. Í bakherbergjunum vonast menn til þess að krakkneysla komi ekki í veg fyrir að hægt verði að lágmarka skaðann af þeirri kreppu, reynist Björgólfur sannspár.