Eitt af því sem hefur vakið athygli fólksins í bakherberginu að undanförnu, er að ekkert lát virðist á því að hinir endurreistu bankar fari út úr fyrirtækjum sem stórir hluthafar, þrátt fyrir að nú séu brátt sjö ár frá því að bankarnir voru endurreistir.
Þetta endurspeglaðist ekki síst í því þegar fasteignafélagið Reitir var skráð á markað á dögunum. Þá var margföld eftirspurn eftir hlutabréfum í félaginu, en samt seldu bankarnir ekki alla hluti sína, raunar langt í frá, og svo virðist sem Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið séu ekkert að stressa á þessu.
Það verður að teljast stórundarlegt, enda fer það engan vegin saman á samkeppnismarkaði að bankar hagi sér eins og einkafjárfestar, á sama tíma og þeir eru að þjónusta fyrirtæki með hefðbundinni fjármálaþjónustu. Raunar er það alveg skýrt í lögum að bankar megi ekki stunda óskyldan rekstur nema með undanþágu frá FME.
Skömmu eftir hrunið var ekki óeðlilegt að bankar kæmu að því að endurreisa rekstur fyrirtækja, og væru tímabundið hluthafar, en nú eru liðin næstum sjö ár og enn eru bankarnir hluthafar í mörgum fyrirtækjum, þar á meðal skráðum fyrirtækjum eins og HB Granda, auk Reita og fleiri fyrirtækja.
Það verður að teljast undarlegt að þeir séu ekki skikkaðir til að selja hlutina eins og fljótt og auðið er. Hvað eru stjórnendur FME að hugsa? Hvers vegna leyfir stofnunin bönkunum að valta yfir samkeppnismarkaðinn á skítugum skónum? Þegar stórt er spurt...