23 bílaleigufyrirtæki fengu 875 milljón króna skattafslátt til kaupa á bensín- og dísilbílum í fyrra.
Sömu fyrirtæki munu fá hátt í milljarð til viðbótar í ár samkvæmt tekjuáætlun sem liggur til grundvallar fjárlögum (eða fjórðung af þeirri fjárhæð sem stjórnarmeirihlutinn fékkst til að veita til niðurgreiðslu almennrar sálfræðiþjónustu eftir tvö ár af geðheilsuspillandi heimsfaraldri).
Tölurnar koma fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn sem ég beindi til hans um vörugjaldsívilnun til ökutæjaleiga sem var lögfest í árslok 2020.
Skattastyrkurinn felur í sér að fyrirtækin fá allt að 400 þúsund króna afslátt af bensín-, dísil- og tengiltvinnbílum svo lengi sem hlutfall jarðefnaeldsneytisbíla af heildarinnkaupum þeirra er ekki hærra en 85% árið 2021 og 75% árið 2022. Vegna þessara skilyrða er aðgerðin réttlætt í nafni orkuskipta.
Þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins studdu lagabreytinguna en Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins lögðust gegn henni.
„Á sama tíma og stjórnvöld boða meiri metnað í loftslagsmálum er meira en lítið öfugsnúið að vilja niðurgreiða bensínbíla í þágu orkuskipta,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þá þingmaður utan flokka, þegar greidd voru atkvæði um málið.
„Bílaleigubílar eru um 7,3% af bílaflota Íslands en valda 10,6% af losun vegna samgangna á landsvísu. Þeim peningum sem fara í að niðurgreiða kaup á bensínbílum væri miklu betur varið í kraftmikla uppbyggingu rafhleðsluinnviða,“ skrifaði ég.
Nú er svo komið að jafnvel fjármálaráðuneytið viðurkennir opinberlega að vörugjaldsafslátturinn hafi verið óskilvirk aðgerð. „Afslátturinn gerir jarðefnaeldsneytisbíla ódýrari og vinnur því að hluta til gegn rafvæðingu bílaleigna,“ segir í minnisblaði sem barst efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis nú í desember.
Bent er á að hjá bílaleigum sem náð hafa tilskilinni hlutdeild vistvænna bíla skapi kerfið hvata til að kaupa jarðefniseldsneytisbíla sem síðan fara í endursölu að 1-2 árum liðnum.
„Í ljósi mikils veltuhraða í nýskráningum og endursölu bílaleigubíla er hætta á að slíkt fyrirkomulag geti verið til þess fallið að tefja orkuskiptin, einkum sé tekið tillit þess að tekjutap ríkisins í formi eftirgjafar af vörugjaldi er ígildi fórnaðra framlaga til annarra aðgerða í þágu loftslagsmála.“
Orkuskiptum í samgöngum verður ekki náð fram með hundruða milljóna niðurgreiðslu ríkisins á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og orkuskiptin mega aldrei verða átylla fyrir ómarkvissar peningagjafir úr ríkissjóði – frá almenningi – til stórfyrirtækja.
Slíkt hlýtur að grafa undan samstöðu og sátt um þær aðgerðir sem verður að ráðast í til að fasa út jarðefnaeldsneyti á komandi árum.